Samræmdar öryggiskröfur fyrir jarðgöng

Birt hefur verið ný reglugerð um öryggiskröfur fyrir jarðgöng og leysir hún af hólmi eldri reglugerð um sama efni.

Með setningu reglugerðarinnar er leitast við að samræma öryggiskröfur til sambærilegra jarðganga, sem eru lengri en 500 metrar, og að efla enn frekar eftirlit með að öryggiskröfum sé fylgt. Ellefu jarðgöng falla undir nýju reglugerðina.

Jarðgöng sem falla undir reglugerðina (nafn – opnunarár – lengd) 

 • Hvalfjarðargöng – 1998 – 5.770 m
 • Dýrafjarðargöng – 2020 – 5.600 m
 • Göng undir Breiðadals- og Botnsheiði – 1996 – 2.000/4.000/3.000 m
 • Bolungarvíkurgöng – 2010 – 5.400 m
 • Strákagöng – 1967 – 800 m
 • Héðinsfjarðargöng – 2010 – 7.100+3.900 m
 • Múlagöng – 1990 – 3.400 m
 • Vaðlaheiðargöng – 2018 – 7.500 m
 • Norðfjarðargöng – 2017 – 7.900 m
 • Fáskrúðsfjarðargöng – 2005 – 5.900 m
 • Almannaskarðsgöng – 2005 – 1.300 m

Samgöngustofu er samkvæmt nýju reglugerðinni falið skýrt eftirlitshlutverk með því að öryggiskröfur í jarðgöngum séu uppfylltar.

Stofnunin skal m.a. sjá til þess að reglubundnar skoðanir séu gerðar á jarðgöngum. Þá eru Samgöngustofu veittar skýrar heimildir til að stöðva tímabundið eða takmarka starfsemi jarðganga ef öryggiskröfum er ekki fullnægt. Vegagerðin hafði víðtækt eftirlitshlutverk samkvæmt eldri reglugerð en með breytingunum eru verkefni veghaldara og eftirlitsaðila aðskilin.

Jarðgöng á Íslandi verða framvegis flokkuð í tvo flokka eftir aldri og legu og ólíkar kröfur gerðar til hvors flokks fyrir sig.

Í flokki I eru jarðgöng sem tilheyra samevrópska vegakerfinu og öll jarðgöng tekin í notkun eftir 31. apríl 2006, hvort sem þau tilheyra samevrópska vegakerfinu eða ekki.

Í flokki II eru jarðgöng utan samevrópska vegakerfisins sem tekin voru í notkun fyrir 1. maí 2006.