Merkir Íslendingar – Sigurgeir Sigurðsson

Sigurgeir Sigurðsson biskup fæddist þann 3. ágúst 1890 í Túnprýði á Eyrarbakka.

Sigurgeir var sonur Sigurðar Eiríkssonar, regluboða Góðtemplarareglunnar, organleikara og dannebrogsmanns á Eyrarbakka og síðar í Reykjavík, og Svanhildar Sigurðardóttur, húsfreyju á Eyrarbakka og síðar í Reykjavík.

Sigurður var sonur Eiríks, b. á Ólafsvöllum á Skeiðum Eiríkssonar, dbrm. á Skeiðum, bróður Katrínar, ömmu Árna Þórarinssonar, prests á Snæfellsnesi, hvers ævisögu Þórbergur Þórðarson skráði á sínum tíma. Katrín var auk þess langamma Ásmundar Guðmundssonar biskups. Eiríkur var sonur Eiríks, ættföður Skeiðaættar Vigfússonar. Móðir Sigurðar var Guðlaug Sigurðardóttir húsfreyja.

Svanhildur var dóttir Sigurðar Teitssonar, hafnsögumanns í Neistakoti og í Mundakoti á Eyrarbakka, og Ólafar Jónsdóttur húsfreyju.

Sigurgeir Sigurðsson kvæntist þann 17. nóvember 1917  Guðrúnu Pétursdóttur bónda í Hrólfsskála á Seltjarnarnesi.
Þeirra börn voru:

Pétur biskup sem fæddur var þann 2. júní 1919 á Sjónarhæð á Ísafirði, dáinn þann 4. júní 2010,
Sigurður deildarstjóri í sparisjóði Útvegsbankans,

Svanhildur deildarstjóri í utanríkisráðuneytinu

og Guðlaug næringarráðgjafi.

Sigurgeir varð stúdent í Reykjavík 1913 og lauk guðfræðiprófi við Háskóla Íslands 1917. Hann fór í námsför til Danmerkur og Þýskalands árið 1928 og dvaldi við nám í Danmörku og Englandi (London, Cambridge og Oxford) veturinn 1937-38.

Sigurgeir var aðstoðarprestur séra Magnúsar Jónssonar á Ísafirði frá 1917 og var vígður þá um haustið. Árið 1918 var honum veittur Ísafjörður. Hann var skipaður prófastur í Norður-Ísafjarðarprófastsdæmi árið 1927.

Sigurgeir var skipaður biskup yfir Íslandi 1938 frá ársbyrjun 1939 og var vígður til biskups 25. júní 1939.

Sigurgeir ferðaðist mikið og var fulltrúi Íslands á fjölmörgum fundum og þingum víða um heim. Hann hlaut einnig margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín.

Sigurgeir Sigurðsson lést þann  13. október 1953.


Á Þingvöllum við lýðveldisstofnun þann 17. júní árið 1944.
F.v.:  Sveinn Björnsson (1881 – 1952),  forseti Íslands og Sigurgeir Sigurðsson (1890 – 1953) biskup Íslands. 1890-1953. Ljósm Þjóðminjasafn Íslands.



Skráð af Menningar-Bakki.

DEILA