Laugardalsá: fiskirækt frá 1936

Rakin er saga laxagengdar og laxveiði Laugardalsár í Ísafjarðardjúpi í riti Hafrannsóknarstofnunar frá janúar 2019 sem ber nafnið: Vöktunarrannsóknir í Laugardalsá við Ísafjarðardjúp. Höfundar eru Sigurður Már Einarsson og Ingi Rúnar Jónsson.

Laugardalsá var áður aðeins fiskgeng að Einarsfossi um hálfan km ofan við ós í sjó. Fyrsta tilraun til að greiða fiski
göngu um fossinn var gerð árið 1941 en sú tilraun skilaði ekki árangri. Árið 1950 var sprengd renna sem fiskur komst um. Eftir það tók lax að ganga upp fyrir fossinn og samfelldar skýrslur um veiðinýtingu liggja fyrir frá árinu 1954. Gönguleiðin þótti erfið og steyptur fiskvegur var síðan byggður við Einarsfoss árið 1969, en fossinn er 7,5 m að hæð.

Fyrstu tilraunir til fiskiræktar voru gerðar árið 1936 en þá var kviðpokaseiðum af Elliðaárstofni sleppt í Laugabólsvatn
og áframhald varð á sleppingum kviðpokaseiða á fimmta áratugnum. Frá 1965 til 1991 var alls sleppt um 19.000 laxagönguseiðum á vatnasvæðið, mest frá eldisstöðinni Laxalóni og einnig var alls sleppt um 35.000 sumaröldum laxaseiðum aðallega frá eldisstöðinni í Kollafirði. Ekki er vitað um árangur af þessum fiskiræktartilraunum segir í skýrslunni frá janúar 2019.

Laugardalsá á uppruna sinn á Skötufjarðarheiði á hálendinu á milli Skötufjarðar og Mjóafjarðar og fellur um Laugardal til sjávar í Strandseljavík í Ísafjarðardjúpi. Áin er um 16 km að lengd og vatnasviðið er 56 km2 að stærð (Sigurjón Rist 1990). Tvö stöðuvötn setja mikinn svip á vatnasvæðið. Efstadalsvatn er efra vatnið, 0,55 km2 að stærð, í 123 m h.y.s., en neðar er Laugabólsvatn, 0,7 km2 að stærð, og liggur í 41 m h.y.s. Laugardalsá neðan Laugabólsvatns er rúmlega 4 km að lengd og áin á milli vatna er tæplega 4 km.

Mynd úr skýrslunni sem sýnir vatnasvið Laugardalsár.

Skýrsluhöfundar segja að litlar heimildir sé að finna um veiðinýtingu í Laugardalsá. Þó er til máldagi um Vatnsfjarðarkirkju frá 1397, en þar kemur fram að Vatnsfjarðarkirkja hefur heimild til laxveiða í Laugardalsá þriðja hvert ár (Hið íslenska bókmenntafélag, 1897). Einnig er til heimild um laxveiðar í Laugardalsá neðan við Einarsfoss á fjórða áratugnum (Óskar Jóhannsson, 2013).

Litlar fiskirannsóknir liggja fyrir á vatnasvæði Laugardalsár. Útbreiðsla tegunda og seiðamagn og búsvæði fiska voru könnuð árin 1991 og 1994 af Veiðimálastofnun.

Mjög takmörkuð gögn eru til um seiðaframleiðslu Laugardalsár, en skýrsluhöfundar segja að samfelld vöktun á hrygningu, seiðaklaki og seiðauppeldi geti leitt í ljós hvort hrygningarstofn árinnar er nægilega stór til að tryggja fulla nýtingu á framleiðslugetu búsvæða.

Algengt er að ár á sama landsvæði sveiflist í takt og er líklegt að sjávarumhverfið hafi þar hvað mest áhrif. Mikil fylgni er þannig í laxveiði í Langadalsá og Laugardalsá undanfarna tvo áratugi, en fyrir þann tíma var veiði í Laugardalsá mun öflugri.

Vöktun fiskstofna Laugardalsár er talin mikilvæg til að meta hugsanleg áhrif fiskeldis á náttúrulega stofna árinnar. Öflug fisktalning með fiskteljara gegnir þar lykilhlutverki. Jafnframt er mikilvægt að afla frekari þekkingar á náttúrulegum fiskstofnum á vatnasvæði Laugardalsár.