Íslenskuvænn staður

Kæru, Vestfirðingar, Íslendingar, allir sem kunna á íslensku skil.

Í tengslum við sumarnámskeið okkar í íslensku, höfum við í hyggju að setja á laggirnar smá verkefni, samfélagsverkefni, sem nefnist Íslenskuvænn staður. Það felur í sér smá þátttöku af ykkar hálfu, ykkar sem rekið fyrirtæki ellegar vinnið hjá stofnunum á svæðinu. Við myndum setja okkur í samband við ykkur, aðili á okkar vegum mun rölta um bæinn og taka ykkur tali. Þið gætuð aukinheldur sett ykkur í samband við okkur fari svo að þið hafið þar áhuga á. Fyrst um sinn væri aðallega um Ísafjörð að ræða en auðvitað væri ekki síður af hinu góða, settu aðilar úr öðrum bæjarfélögum sig í samband við okkur. Munum við og einnig leitast við að koma þar við.

Verkefnið er einfalt. Þið fáið plagg til að setja í gluggann sem segir að staður ykkar sé íslenskuvænn staður; að þið sem þar vinnið leggið ykkur í líma við að tala íslensku við þá einstaklinga sem eru að læra málið og talið hægt og skýrt og endurtakið sé farið þess á leit við ykkur. Í þessu væri sem sagt ákveðin skuldbinding fólgin svo og þolinmæði.

Plaggið má sjá hér fyrir neðan og auðvitað er í besta lagi að hlaða því niður, fýsi ykkur svo hugur, og setja í glugga ykkar. Við myndum þó vinsamlega biðja ykkur um að láta okkur vita svo við gætum sett ykkur á lista okkar. Við viljum nefnilega endilega hafa slíkan lista á takteininum.

Nú þegar hefir einn staður riðið á vaðið og heitið því að leitast við að tala íslensku við nemendur okkar. Er þar um Edinborg Bístró, Aðalstræti 7 á Ísafirði að ræða.

Er það von okkar að sem flestir sýni þessu áhuga og leggi sitt lóð á vogarskálarnar svo að þeir sem leggja út í að læra íslensku fái sem flest tækifæri til að nota málið og æfa sig í notkun þess. Mál verður jú ekki lært nema með því að nota það, ekkert lærist víst af sjálfu sér. Við erum þess handviss að þetta myndi hjálpa mikið og ekki þá síst þeim sem eru uggandi við að spreyta sig. Við erum viss um að íslenskuvænn staður kunni að brjóta niður þær andlegu hömlur sem oft standa í vegi fyrir fólki.

Hafið endilega samband í netfangið islenska@uw.is eða í sími 8920799 (Ólafur).

Með vinsemd og virðingu,

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson verkefnastjóri íslenskunámskeiða Háskólaseturs Vestfjarða