Íslenskunámskeið Háskólaseturs Vestfjarða

Kæru, Ísfirðingar.

Núna í ágúst eiga sér, líkt og raunin hefir verið í um áratug, íslenskunámskeið Háskólaseturs Vestfjarða stað. Svo segir mér hugur að þið séuð mörg hver meðvituð um þá staðreynd. Að þessu sinni bjóðum við upp á fimm námskeið, þrjú byrjendanámskeið og tvö fyrir lengra komna. Samtals verðum við með 61 nemanda á tímabilinu 2. ágúst til 10. september. Tólf nemendanna koma svo til með að vera áfram hjá okkur í haf- og strandsvæðastjórnun ellegar sjávarbyggðafræði og koma því til með að bætast við fjölbreyta íbúaflóru bæjarins.

Margir nemendanna eru langt að komnir. Ófáir búa þeir á Íslandi og sumir hverjir meira að segja hér á Vestfjörðum, á Ísafirði. Allir hafa nemendurnir tengingu við Ísland hvort sem það er af fjölskylduástæðum ellegar huglægum eða atvinnulegum. Allir eru þeir og óðir og uppvægir að læra eins mikið og þeim er framast. Sú er oftast raunin með þá sem læra íslensku.

Nú eru umtalsverðar líkur á að nemendur okkar komi til með að reka á fjörur ykkar á þessu tímabili og jafnvel að þeir leitist við að nota þá íslensku sem þeir læra hjá okkur til að tjá sig við ykkur. Eina, eða allavega, langbesta leiðin til að læra tungumál er jú að nota það. Viljum við þess vegna fara þess á leit við ykkur, og vonum innilega að verða megi við því, að þið gerið ykkar besta til að notast við okkar ylhýra í stað þess að skipta yfir á ensku eins og stundum kann að vera raunin.

Það er nefnilega svo að Ísafjörður er tilvalinn bær til þess að læra og æfa íslensku. Hér er meira og minna allt sem finna má fyrir sunnan þótt í minna mæli sé og hér fer fólk síður varhluta af þeim íslenskunámskeiðum sem eiga sér stað og hér má og telja að ekki sé sami asi á fólki og kann að vera í höfuðborginni. Það er nefnilega ekki ónauðsynlegt að temja sér þolinmæði þegar kemur að því að spjalla við einstaklinga sem leggja stund á málið.

Aukinheldur eru að líkindum meiri líkur á því hér að sá aðili sem þjónustar nemandann á einhvern hátt hafi íslensku á valdi sínu og noti hana í samskiptunum og sé þá ef til vill meðvitaður um þá staðreynd að enginn lærir íslensku sé hún ekki brúkuð, heyri sá hinn sami hana ekki heldur einvörðungu ensku. Fjölyrða hlýtur að mega um að ekki hafi nokkur sála tileinkað íslensku með því að tala og hlusta á ensku. Einnig er óhætt að halda því fram að Ísafjörður sé tilvalinn staður til þess að leggja stund á íslensku og æfa sig í notkun málsins, að Ísafjörður sé eða geti verið sannkallað íslenskuþorp.

Viljum við sem stöndum að íslenskunámskeiðunum vinsamlega biðja ykkur um að hafa þetta í huga og tala íslensku (stundum hægar og skýrar en ella, stundum með einfaldari orðaforða) við þá sem leitast við að æfa og læra málið, allavega uns viðkomandi fer þess sjálfur á leit að þið skiptið yfir á ensku eða annað erlent mál sem þið kunnið að hafa á valdi ykkar.

Með bestu fyrirfram þökkum,

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson verkefnastjóri íslenskunámskeiðanna

DEILA