Ísafjarðardjúp: Engin fiskræktaráætlun er til

Laxastiginn í Laugardalsá.

Ekki eru í gildi fiskræktaráætlanir fyrir Veiðifélag Langadalsár, Hvannadalsár og Þverár eða fyrir Veiðifélag Laugardalsár í Ísafjarðardjúpi.

Þetta kemur fram í svari Fiskistofu við fyrirspurn Bæjarins besta.

Áskilið er í lögum um fiskrækt frá 2006 að skylt er að gera fimm ára fiskræktaráætun í hverju því veiðivatni, þar sem ætlunin er að stunda fiskrækt með sleppingu seiða, hafbeit til stangveiði eða öðru því er að fiskrækt lýtur. Skyldan hvílir á viðkomandi veiðifélagi.

Tilgangur fiskræktaráætlunar er samkvæmt lögunum að gera fyrirhugaða fiskrækt markvissa og árangursríka og tryggja eftir föngum að þannig sé að fiskrækt staðið í hvívetna að vistkerfi villtra ferskvatnsfiskstofna stafi ekki hætta af slíkum framkvæmdum.

Framkvæmd samkvæmt fiskræktaráætlun er háð samþykki Fiskistofu. Áður en samþykki er veitt skal Fiskistofa  leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar.  Í samþykki skulu koma fram þeir skilmálar sem Fiskistofa  telur nauðsynlega, m.a. til verndar viðkomandi fiskstofni gegn sjúkdómum og erfðablöndun. 

Forsenda fiskiræktar hvort sem það felst í töku hrogna, sleppingu seiða, hafbeit eða breytingum á farvegi er að fyrir liggi samþykkt fiskræktaráætlun. Fram þarf að koma í fiskræktaráætluninni hver arfgerð fiskitegundarinnar er og hver nákvæmlega fiskræktin er sem stefnt er að.

Stangveiðifélag Reykjavíkur hefur Laugardalsá á leigu.

DEILA