Ísafjarðarbær: snjóflóðavarnir á Flateyri fari ekki í umhverfismat

Varnargarðurinn á Flateyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Skipulagsstofnun ber lögum samkvæmt að taka ákvörðun um það hvort fyrirhugaðar framkvæmdir við snjóflóðavarnir á Flateyri þurfi að fara í umhverfismat. Það er ferli sem að jafnaði tekur 1 – 2 ár. Stofnunin leitar til ýmissa aðila eftir umsögn þeirra áður en ákvörðun er tekin.

Ísafjarðarbær er einn þeirra og bæjarráðið hefur staðfestir umsögn sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs um að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Segir í umsögninni að svæðið sé þegar mikið raskað eftir fyrri framkvæmdir og þótt verulegt rask verði á framkvæmdatíma þeirra endurbóta sem eru fyrirhugaðar muni vandaður frágangur og uppgræðsla bæta úr því. Búist er við niðurstöðu Skipulagsstofnunar fljótlega.

Framkvæmdirnar við ofanflóðavarnir á Flateyri fela í sér tilfærslu á efni sem hefur safnast upp í rásum í gegnum árin með snjóflóðum og með aurburði á vorin, væntanlega með leysingum. Áætlað efnismagn er 140.000 rúmmetrar, sem skiptist í annars vegar 25.000 rúmmetrar í uppsöfnuðu efni og hins vegar víkkun rásar meðfram varnarmannvirki um 115.000 rúmmetrar í víkkun rásarinnar.

Í flóðrásina við leiðigarðinn neðan Innra-Bæjargils á Flateyri hefur safnast framburður borinn með snjóflóðum og hugsanlega leysingum. Rásin er allt að 5 m hærri á köflum en hún var hönnuð í upphafi og því garðurinn undir Innra-Bæjargili allt að 5 m of lágur miðaða við upphaflega hönnun. Hreinsun rásarinnar er því hluti af eðlilegu viðhaldi varnanna (um 25 þús. m3 ). Samhliða hreinsun er lagt til að rásin verði víkkuð við námu, neðst við garðinn, þar sem hún er óheppilega þröng.

Áætlað er að þetta verði unnið fyrir næstkomandi vetur. Síðar er gert ráð fyrir varnargarði fyrir höfnina.

Miðað er við útfærslu 2 í tillögunni til Skipulagsstofnunar.

DEILA