Hestaleikar Glaðs í Reykhólahreppi

Tómstundastarf Reykhólahrepps í samvinnu við æskulýðsnefnd Glaðs stóð fyrir Hestaleikum Glaðs fyrir börn á öllum aldri í reiðhöllinni í Búðardal. Þar reiddu saman hesta sína (í orðsins fyllstu merkingu) um 30 börn úr Reykhólahreppi og Dalabyggð. Markmið dagsins var hópefli, gera sér glaðan dag og jafnvel fyrir einhverja að undirbúa sig undir keppnir seinna meir en það er nú bara aukaatriði.

Dagurinn var hreint út sagt frábær. Börnin brosandi út að eyrum ýmist á eigin hestum eða lánshestum. En Fremri-Gufudalur, Perluhestar Lindarholti og Dalahestar lánuðu hesta svo að öll börn gátu vel við unað á skemmtilegum reynslumiklum reiðhestum.

Dagurinn byrjaði á þrautabraut fyrir knapa og hesta þar sem knaparnir voru ýmist teymdir eða riðu sjálfir þrautabraut þar sem þurfti að fara sikk sakk, ná í keilu færa hana á annað borð og fara í gegnum hlið til að klára brautina. Því næst sá Sjöfn Sæmundsdóttir reiðkennari um sætisæfingar þar sem æfingar á borð við sprungnu rolluna, að fara heiminn og höfuð herðar hné og tær voru framkvæmdar af mikilli yfirvegun og börnin öll með frábært jafnvægi.

Á öllum alvöru hestamannamótum er að sjálfsögðu einn af aðal punktunum að sýna sig og sjá aðra og hádegishléið fór í spjall og pulsuát en börnin voru fljót að kynnast og byrja að hlæja saman.

Eftir hádegi var svo farið í frjálsa ferð á tölti eða brokki og þeim öllum stillt upp í myndatöku. Síðasti dagskrárliðurinn var svo kynning á fimleikum á hestum en þar prófuðu þau að standa upp, standa á haus (eða öxl) og sýndu börnin mikla fimi.

Allir fóru glaðir og ánægðir heim eftir vel hepnaðan dag og þökkum við öllum kærlega fyrir þátttökuna í deginum sem hver veit nema verði árviss.

 

Jóhanna Ösp Einarsdóttir

DEILA