Grunnmenntaskólinn að fara af stað hjá Fræðslumiðstöðinni

Grunnmenntaskólinn er ætlaður fullorðnu fólki á vinnumarkaði sem hefur ekki lokið framhaldskóla og er eldra en 18 ára. Stuðst er við námskrána Grunnmennt frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Fræðslumiðstöð Vestfjarða er í samstarfi við Menntaskólann á Ísafirði sem metur námið til eininga á móti áföngum í bóknámi eða sem val. Námið er á 1. þrepi og getur í heild svarað til allt að 24 framhaldsskólaeiningum.

Námið getur einnig verið hluti af þeim almennu bóklegu greinum sem krafist er í iðnámi, tækninámi og Fisktækniskóla Íslands. Námsleiðin hentar einnig þeim sem hafa ekki verið í námi lengi en langar að komast af stað aftur.

Markmið námsins er einkum að stuðla að jákvæðu viðhorfi til náms, byggja upp undirstöðu í námstækni, færnieflingu, sjálfstyrkingu og samskipti um leið og námið byggir upp haldgóða undirstöðu í kjarnagreinum (íslensku, stærðfræði og ensku) auk tölvu- og upplýsingatækni. Þátttakendur fá einstaklingsráðgjöf og stuðning á námstímanum.

Áætlað er að námið fari af stað í haust og skiptist á tvær annir. Kennt er tvisvar til þrisvar í viku utan hefðbundins vinnutíma.