Gallup: Framsókn og Samfylking tapa þingsæti til Pírata og Vinstri grænna

Píratar og Vinstri grænir vinna þingsæti í Norðvesturkjördæmi í nýjustu fylgiskönnun Gallup, sem birt hefur verið á RUV. Samkvæmt kjördæmaniðurbroti könnunarinnar er fylgi flokkanna í kjördæminu eftirfarandi:

Í kjördæminu eru 7 þingsæti sem deilast út til flokkanna þannig að Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir fengju 2 þingsæti hvor flokkur, Framsóknarflokkurinn, Miðflokkur og Píratar eitt sæti hver. Vinstri grænir og Píratar myndu vinna þingsæti ef úrslitin yrðu samkvæmt könnuninni en Samfylkingin tapaði sínum manni og Framsókn tapaði öðru þingsæti sínu.

Það er hins vegar mjög hörð barátta um sjöunda þingsætið milli stjórnarflokkanna. Það hreppa Vinstri grænir með 8,05% á bak við 2. mann sinn. En 3. maður Sjálfstæðisflokksins er með 8,0% og 2. maður Framsóknar er með 7,9% svo munurinn er afar lítill og hver þessara þriggja flokka gæti náð þingsætinu. Í Norðvesturkjördæmi er 0,1% um það bil 18-19 atkvæði.

Það er ekki alveg ljóst hvaða flokkur myndi hreppa jöfnunarþingsætið. Þó virðist Sjálfstæðisflokkurinn ekki eiga kost á neinu jöfnunarsæti þar sem flokkurinn fær 17 þingmenn kjörna á landsvísu og alla kjördæmakjörna. Vinstri grænir eru í sömu stöðu, að eiga ekki rétt á jöfnunarsæti. Það myndi breytast ef þeir fengju ekki 2 menn í Norðvesturkjördæmi, þá ættu þeir rétt á 1 jöfnunarþingsæti.

Framsóknarflokkurinn fær 1 jöfnunarþingsæti og því gæti 2. maður flokksins í Norðvesturkjördæmi náð því. Sama á við um Samfylkingu, að efsti maður þess lista gæti komið til greina í jöfnunarþingsætið sem Samfylkingin fær samkvæmt könnuninni. Viðreisn fengi 3 jöfnunarþingsæti á landsvísu en fylgi flokksins í Norðvesturkjördæmi er það lágt að líkurnar eru afar litlar fyrir jöfnunarsæti. Sósíalistaflokkurinn fengi 2 jöfnunarþingsæti og efsti maður listans í Norðvesturkjördæmi virðist koma til greina við úthlutun þeirra sæta. Miðflokkurinn fékk síðast jöfnunarþingsætið í Norðvesturkjördæmi og miðað við könnuna er ekki alveg útilokað að hann gæti fengið það aftur.

Það sem gerir snúið að finna út hver fengi hvaða jöfnunarþingsæti er að fyrst er úthlutað til þess flokks sem mest vantar upp á þingmannafjölda í samræmi við kjörfylgi á landsvísu. Þar gætu orðið fyrir valinu ákveðin kjördæmi sem svo eru þá ekki möguleg við úthlutun jöfnunarþingsæta til annarra flokka. Því geta fylgismeiri flokkar misst af jöfnunarþingsæti í ákveðnu kjördæmi en fengið í öðru með minna fylgi.