Ekki má útiloka virkjun í Vatnsfirði

Unnið er að stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum á vegum umhverfisráðherra, Vesturbyggðar og Ísafjarðarbæjar. Stóra álitaefnið er hvort friðlýsingarskilmálar þjóðgarðsins geri ráð fyrir 20-30 MW vatnsaflsvirkjun innarlega í Vatnsfirði eða ekki.

 

Það er sanngjörn krafa Vestfirðinga að einstök náttúrufegurð og sérstaða fjarðanna verði viðurkennd með stofnun þjóðsgarðs og að Vestfirðingar búi við sama orkuöryggi og aðrir landsmenn. Með þjóðgarði á sunnanverðum Vestfjörðum og virkjun í Vatnsfirði taka Vestfirðingar þessi mikilvæg hagsmunamál í sínar hendur og slá tvær flugur í einu höggi.

 

Loforð stjórnvalda um að bæta raforkukerfið

Það hefur verið viðvarandi verkefni stjórnvalda áratugum saman að treysta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum en engu að síður er enn langt til lands. Staðan á Vestfjörðum í dag er einfaldlega ófullnægjandi þegar horft er til aflþarfar, afhendingaröryggis eða möguleika á grænun orkulausnum eins og orkuskiptum í samgöngum og rafeldsneytisframleiðslu.

 

Einungis tveir valkostir eru í boði til að bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum. Annars vegar virkjun eða virkjanir nálægt notkunarstöðum eða hins vegar tvöföldun á 160 km flutningslínu frá Hrútafirði að Mjólkárvirkjun. Olíuknúið varaafl er ekki lengur boðlegur valkostur.

 

Kostnaður við tvöföldun á flutningslínunni gæti numið allt að 15 milljörðum og þrátt fyrir loforð stjórnvalda um að mæta kröfu um N-1 tengingu á Vestfjörðum virðist þessi lausn ekki vera í sjónmáli þegar horft er til dæmis til erfiðleika Landsnets á því að styrkja byggðalínuna hringinn í kringum landið. Horfa verður því til skynsamlegra virkjunarkosta á Vestfjörðum ef bregðast á fljótt og af alvöru við vandanum.

 

Orkuöryggi fullnægjandi með Vatnsfjarðarvirkjun

Austurgils-, Skúfnavatna- og Hvalárvirkjun eru allt spennandi virkjanakostir en kalla á nýjan tengipunkt inná kerfi Landsnets í Ísafjarðardjúpi. Þessir kostir hafa verið í deiglunni og undirbúningur Hvalárvirkjunar var langt kominn þegar framkvæmdaraðili ákvað að slá öllu á frest vegna kostnaðar við að tengjast kerfinu í Ísafjarðardjúpi samkvæmt gildandi gjaldskrá. Þar við situr og er ekkert í hendi um framhaldið.

 

Tröllárvirkjun er kostur sem kanna þarf til hlítar en fjarlægð frá Mjólkárveitu og óhagkvæmni gera virkjun í Vatnsfirði mun álitlegri virkjunarkosti. Vatnsfjarðarvirkjun er líka sá virkjunarkostur á Vestfjörðum yfir 10 MW sem skerðir engin víðerni, þar sem svæðið er þegar raskað af völdum flutningslínunnar, og tryggir raforkukerfið einna best vegna nálægðar við Mjólkárveitu og við flesta notendur.

 

Umhverfismál og friðlandið

Vatnsfjörður, og þar með fyrirhugað virkjanasvæði, er innan friðlands og hefur verið síðan árið 1975. Forsendur fyrir friðlandi í Vatnsfirði á sínum tíma voru fyrst og fremst einstakur birkiskógur og útivistarmöguleikar á svæðinu. Virkjun og virkjanaframkvæmdir hafa engin áhrif á birkiskóginn og umhverfisáhrif verða lítil þar sem möguleiki er á því að bora fyrir allri þrýstipípunni. Umhverfisáhrif neðan við 250 metra hæð eru því aðallega bundin við stöðvarhúsið nálægt sumarbústað. Svæðið ofar 250 metrum sem færi undir vatn er þegar raskað vegna flutningslínunnar.

 

Hvað vill umhverfisráðherra í raun og veru?

Ef virkjunar í Vatnsfirði verður ekki getið í friðlýsingarskilmálum þjóðgarðs er útilokað að virkjanakosturinn verði tekinn upp  og settur í nýtingarflokk rammaáætlunar og skipulagsbreytingar heimilaðar samfara.

 

Virkjunin er raunhæfur og skynsamlegur kostur til að bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum til muna og gera stjórnvöldum og atvinnulífi á Vestfjörðum kost á að sækja fram og nálgast til að mynda markmið um kolefnishlutleysi. Umhverfisáhrif virkjunarinnar í friðlandinu er ekki mikið og því vel ásættanlegt að hennar sé getið í friðlýsingarskilmálum þjóðgarðsins.

 

Varla er umhverfisráðherra Vinstri Grænna svo mikill andstæðingur grænna orkukosta og uppbyggingar á Vestfjörðum að hann muni kasta áformum um þjóðgarð á Vestfjörðum fyrir róða nú í aðdraganda kosninga frekar en að samþykkja friðlýsingarskilmála sem heimila virkjun í Vatnsfirði?

 

Sjálfstæðisflokkurinn vill fara réttu leiðina

Virkjun í Vatnsfirði og þjóðgarður á sunnanverðum Vestfjörðum eru tvö skynsamleg og spennandi verkefni sem eru vel samrýmanleg og mikið hagsmunamál fyrir Vestfirðinga að rétt verði á málum haldið við stofnun þjóðgarðsins. Ef núverandi ráðherra heykist á verkefninu mun Sjálfstæðisflokkurinn klára það fái hann til þess umboð.

 

Komandi alþingiskosningar skipta máli.

 

 

Teitur Björn Einarsson,

Höfundur er Flateyringur og skipar baráttusæti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

 

 

 

 

 

 

 

DEILA