Ég skal, ég get, ég verð

Í Skagafirði ólst ég upp þar til ég var orðin nógu gömul til að halda út í alvöruna og taka þátt í samfélaginu. Hitti manninn minn þegar ég fór í nám austur á Hérað og saman höfum við gengið síðan.

Líf mitt hefur gefið mér þekkingu og styrk sem ég bjóst ekki við að hafa á þeim stað sem ég nú er á, og sú þekking og barátta er ástæða þess að ég býð mig fram til alþingis.

 Ef við hefðum ekki þær takmarkanir sem nú eru í gildi væri ég komin í heimsókn til ykkar, til að kynna mig betur og tala við ykkur beint, því það er jú alltaf besta leiðin og líklegast myndi ég bjóða upp á heimabakað með kaffinu.

Þegar leitað var til mín og ég  beðin um að leiða lista Frjálslynda lýðræðisflokksins (XO) hér í NV þá var fyrsta hugsun nei ,þetta væri ekki fyrir mig. En svo sá ég, að  á þetta yrði ég að láta reyna, annars væri ekki allt fullreynt, því ég hef gert allt annað þegar kemur að því að vera málsvari jaðarsetts hóps.

Börnin eru manni allt og það á við í mínu tilfelli. Börnin mín hafa reynt á kerfið og ég staðið við bak þeirra.  því þau búa ekki við sömu lífsgæði og þeir sem teljast vera  heilbrigðir. Ekki bara stjórnvöld standa í veginum. heldur líka lífeyrissjóðir, og sú baktrygging sem við teljum okkur trú um að við séum að kaupa með mánaðarlegum greiðslum tekið af launum okkar, til að eiga öryggi í framtíðinni þegar við eldumst, eða  ef eitthvað óvænt kemur upp, hún er fölsk.

 Áður snerist baráttan  að skólakerfinu og sveitarfélögunum, nú snýst baráttan um að börnin mín geti séð fyrir sér sjálf og að öll sjálfsbjargarviðleitni sé ekki drepin með endalausum skerðingum sem á engan hátt taka tillit til þess auka kostnaðar sem fólk með fötlun glímir við.

Mín von  er, að þið sjáið eins og ég, að ekki er lengur hægt að treysta loforða rullu þeirra flokka sem setið hafa hvað lengst á þingi, þar sem stjórnsýslan og stjórnvöld virðast ekki sjá, hvort sem það er viljandi eður ei, raunveruleikann sem blasir við okkur.

Því langar mig að verða fulltrúi ykkar og leggja fram raunverulegar spurningar fyrir fólkið sem mun stjórna  og einnig þau hin sem hafa stjórnað landinu okkar. 

Við höfum núna ríkisstjórn þar sem forsætisráðherra sagði að þessi hópur gæti ekki beðið lengur, það væri tími á aðgerðir, það eru 4 ár síðan hún sagði það.  

Við höfum stjórnvöld sem segja að hlutirnir hafi batnað og ég er alveg viss um að þau trúa því, þrátt fyrir örbirgð og fátæktar gildrur  sem alls staðar eru í þjóðfélaginu. Þau trúa því að exelskjölin séu rétt ,og efast aldrei um forsendur þeirra  talna sem sett eru á þessi sömu skjöl, er það ekki séstakt?

Við hvað er verið að miða þegar stjórnvöld segja að hlutirnir hafi batnað?

Er það samanburður við laun þeirra  flokksgæðinga sem raða sér eins og rollur að garða á ríkisjötuna og fá úthlutað sætum í  nefndum og stjórnum ríkisfyrirtækja í krafti flokksskírteina? Er það samanburður við opinbera starfsmenn sem fá laun sín mánaðarlega sem eru þreföld laun öryrkja?

Nei þetta er ekki samanburðurinn, því bætur hafa ekki hækkað í samræmi við laun í landinu, heldur rétt skriðið upp vegna þrýstings hagsmunaaðila.

Málefnin sem ég ætla leggja áherslu á verði ég kjörin á þing snúa að  óréttlæti eins og ritað er hér að ofan.  Mig langar að komast á þing, spyrja spurninga sem við, ég og þú ræðum yfir kaffibollanum og kökusneiðinni. Mig langar að finna svör við spurningunum sem við fengum ekki svar við frá okkar kjörnu fulltrúum sem nú skipa þingsætin.

Í slíka pólitík ætlaði ég aldrei, en þegar maður er búin að upplifa kerfið okkar sleitulaust í  rúm 35 ár og sjá engan árangur sama hvað ég hef haft hátt og sama hvað stór hópur að fólki reynir að segja, þá virðist allt vera frosið. Mig langar að komast að því hvað það er sem gerist fyrir fólk sem nær kjöri sem þingmaður,  fólk sem hefur lofað öllu fögru, allt besta fólk, en það virðist lyppast niður á einhvern bás, bás sem einhver annar stjórnar en þeir sjálfir og loforðin virðast gleymast, fyrnast, í meðförum þingsins. Hvaða veira veldur því?

Ég veit  að leiðinn er löng og margt má og má ekki þegar kemur að því að vinna fyrir ykkur sem þingmaður, en stjórnarskráin er samt skýr, alveg kýrskýr, um að kjörin þingmaður á aðeins að fara eftir sannfæringu sinni sama hvar í flokki þeir standa svo hvað er það eiginlega sem gerist?

Auðvitað þarf stundum að miðla málum, og allt fæst ekki í fyrsta kasti, stundum þarf að kasta nokkrum sinnum.  En að gefast upp er ekki í boði, við verðum að koma því þannig fyrir að foreldrar sem komin eru á besta aldur geti lagt frá sér barráttuna og fengið að eldast og deyja frá börnum sínum, vitandi að þau munu erfa landið og eiga lífsgæði sem eflir þau og bætir.

Af hverju þarf það að vera svona flókið?

Ég er til í að hlusta, leggja reynslu mína  í pottinn, og sem vonandi tryggir réttlátara og betra  samfélag þar sem ekki þarf að berjast við kerfið um ókomna tíð.

XO Lífið er núna, lifum því !

Sigurlaug Gísladóttir

Blönduósi

Ef einhver vill heyra í mér og  eða senda mér  spurningar  er netfangið sgig@simnet.is

Með kveðju

Sigurlaug Gísladóttir

DEILA