Bygging landnámsskála Hallvarðs súganda gengur vel

Í sumar var unnið að byggingu landnámsskálans í botni Súgandafjarðar í þremur áföngum en um er að ræða verkefni á vegum Fornminjafélags Súgandafjarðar. Í maí fór góður flokkur áhugasamra norður í land, nánar tiltekið á Hraun, sem er yst á Skaga. Sumir muna eflaust að þar kom ísbjörn að landi fyrir nokkrum árum. Steinn bóndi og landeigandi á þessari miklu rekajörð tók á móti hópnum og leiðbeindi við val á góðum drumbum til að byggja grind í landnámsskála. Þessi heiðursmaður gaf sér tíma í miðjum sauðburði til að aðstoða við að sækja drumba og hlaða á kerrurnar. Drumbarnir voru fluttir á kerrum til Sauðárkróks og síðan með skipi til Ísafjarðar og þaðan yfir í Súgandafjörð.

Í júní var haldið áfram að hlaða úr klömbru. Fornminjafélagið hefur fengið að stinga úr mýri sem landeigendur í Botni eiga og er skammt frá mógröf frá fyrri tíð. Í skálanum eru næstum 200 klömbrur í hverri umferð eða lagi. Lögin eru fimm og hver klambra vegur um 30 kíló. Veggirnir voru kláraðir í þessari umferð og allir nokkuð sáttir við að þessum kafla skuli vera lokið enda gríðarlega mikil vinna og erfiðasti hlutinn af öllu verkefninu.

Í ágúst stóð Fornminjafélagið í samstarfi við Valdimar Elíasson smið fyrir námskeiði í að smíða burðargrind og þak á landnámsskálann. Valdimar er reyndur smiður og smíðaði fyrir nokkrum árum víkingaskipið Véstein. Burðargrindin er nú komin upp og búið að rífa stóran hluta rekaviðsins í rafta sem eiga að fara á þakið. Fleygur var rekinn í viðinn til að kljúfa hann og voru það oft mikil átök. Timbur í stoðir var sótt í Tunguskóg á Ísafirði og aðstoðaði Sighvatur Dýri frá Höfða í Dýrafirði við að ná í tré en hann sér um að grisja skógræktina í Ísafjarðarbæ. En Sighvatur tók einnig þátt í að hlaða klömbru fyrsta árið.

Ef allt gengur eftir verður lögð lokahönd á þakið á næsta ári og byrjað að vinna inni í skálanum en það þarf að smíða hurð, rúmbálka, þil, hanna langeld og annað. Huga þarf að því að ljós komist inn í skálann og að loftræsting verði fullnægjandi fyrir opinn eld.   

Ingrid Kuhlman