Braut sóttvarnareglur við myndatöku í eldiskvíum

Veiga Grétarsdóttir braut ákvæði í reglugerð um fiskeldi þegar hún fór milli eldissvæða og myndaði eldislax í kvíum í Dýrafirði og Arnarfirði síðastliðið vor. Þar segir að óheimilt sé að sigla nær jaðri sjókvía­eldisstöðvar en 50 m.

Ástæðan er sú að vegna sóttvarna er mikilvægt að bera ekki hugsanlegar sýkingar á milli fjarða og eldissvæða. Verða þeir sem vilja koma nær að gera slíkt í samráði við viðkomandi fyrirtæki.

Þetta má lesa út úr yfirlýsingu Arctic Fish sem send var Bæjarins besta sem svar við fyrirspurn þess. Þar kemur einnig fram að fram að þessu hafi allir sem þess hafa óskað fengið að koma og sjá starfsemi á eldisstöðvum fyrirtækisins.

Yfirlýsing Arctic Fish

„Fréttastofa RÚV birti nýverið myndskeið sem sögð eru vera úr kvíum okkar í Dýrafirði og sýna fiska sem hafa særst. Umrædd myndskeið vekja upp blendnar tilfinningar hjá fólki enda eru umræddir fiskar illa særðir. Líklegt má telja að umræddir fiskar hafi særst á ferð sinni um kvíina t.d. með snertingu við nótina eða reipi sem festa t.d. eftirlitsmyndarvélar og annan búnað. Við það hafa komið sár sem ná ekki að gróa í köldum vetrarsjónum og stækkað með þeim afleiðingum sem sjást á myndskeiðinu.

Á þeim tíma sem umrædd myndskeið eiga að hafa verið tekin upp voru sennilega um 5 milljónir fiska í kvíum á Vestfjörðum. Særðir fiskar, eins og sjást á umræddum myndum eru algjör undantekning og lýsa með engum hætti ástandi í eldiskvíum fyrirtækisins. Nánast öll framleiðsla félagsins, um 99% fer enda í hæstu gæðaflokka.

Enginn atvinnurekstur á Íslandi býr við jafn stranga eftirlitsumgjörð og fiskeldi og allar úttektir eftirlitsaðila og ástand á eldisstæðum eru öllum aðgengilegar á heimasíðu MAST. Starfsfólk Arctic Fish vinnur að því alla daga að bæta heilbrigði og velferð eldisfiska okkar og það er okkar markmið að engir fiskar ættu að þurfa að líða. Það er hinsvegar þannig, þegar verið er að ala milljónir fiska á ári, þá eru fiskar sem verða undir af ýmsum ástæðum. Með öflugu gæðakerfi, daglegu eftirliti í kvíunum þar sem að veikburða fiskar eru teknir út og með stórum kvíum þar fiskarnir okkar hafa gott pláss, tryggjum við velferð okkar fiska eftir fremsta megni.

Jafnframt áréttar félagið að óheimilt er að fara í eldiskvíar fiskeldisfyrirtækja án leyfis. Er það meðal annars vegna sóttvarna því mikilvægt er að bera ekki hugsanlegar sýkingar á milli fjarða og eldissvæða. Þeir sem hafa áhuga á að koma og skoða starfsemi okkar er velkomið að hafa samband. Fram að þessu hafa allir sem þess hafa óskað fengið að koma og sjá starfsemi á eldisstöðvum okkar.“

Björn Hembre forstjóri Arnarlax vísaði til svara sinna í frétt RÚV um málið. Þar sagði hann að særður fiskur væri undantekning og að þeim fiskum væri fargað, og ennfremur að 99% fiska væru án útlitsgalla.