Vesturbyggð: skuldahlutfall sveitarfélagsins 133%

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur afgreitt ársreikning sveitarfélagsins fyrir 2020. Heildarskuldir sveitarfélagsins voru 2.141 milljónir króna um síðustu áramót sem jafngildir liðlega 2 milljónum króna á hvern íbúa. Fyrir fjórum árum voru heildarskuldirnar 1,5 milljón króna á hvern íbúa. Hafa þær hækkað um þriðjung í krónutölu en vegna aukinna tekna sveitarfélagsins á tímabilinu hækkaði skuldahlutfallið mun minna mælt af tekjum eða úr 119% í 133% sem jafngildir um 10% raunhækkun.

Veltufjárhlutfall sveitarfélagsins er aðeins 0,55 sem þýðir að skammtímaskuldir eru nærri tvöfalt hærri en veltufé.

Rekstrarafkoma bæjarsjóðs var neikvæð um 109 milljónir króna. Tekjur voru 1.278 m.kr. og útgjöld 1.264 m.kr. Við bætast svo fjármagnsgjöld og afskriftir og að teknu tilliti til þess urðu gjöld 109 milljónum króna hærri en tekjurnar. Bæjarsjóður var einnig rekinn með verulegum halla árið 2019. Þá var hallinn 69 m.kr.

Staðan batnar hins vegar verulega þegar tekinn var með rekstur stofnana sveitarfélagsins, tekjur þeirra og gjöld. Þá verður niðurstaðan 10 m.kr. jákvæð afkoma. Þetta skýrist fyrst og fremst af því að hafnarsjóður skilaði 67 m.kr. afgangi og Fasteignir Vesturbyggðar 31 m.kr. sömuleiðis. Niðurstaðan er að bæjarsjóður skuldaði eigin fyrirtækjum 130 m.kr. um síðustu áramót.

Útsvar var stærsti tekjuliðurinn og skilaði 693 m.kr. og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiddi 373 m.kr. til sveitarfélagsins. Laun og tengd gjöld voru langstærsti útgjaldaliðurinn upp á 781 m.kr.

Helstu framkvæmdir ársins voru ofanflóðavarnir 541 m.kr. og hafnargerð 200 m.kr. Framlag bæjarsjóðs til Ofanflóðavarna á árinu 2020 voru 54 m.kr. og 57 m.kr. til hafnarmannvirkja. Athuga ber að svo getur farið að hluti af framlagi sveitarfélagsins til ofanflóðavarna falli niður vegna reglna um greiðslu á framlagi þess. Sveitarfélagið fær lán hjá Ofanflóðasjóði fyrir framlagi sínu til framkvæmda. Endurgreiðsla þess skal aldrei nema hærri fjárhæð en 1% af höfuðstól lána, ásamt vöxtum og verðbótum auk 0,15% af álagningarstofni fasteignaskatts af íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu að viðbættum 50% af hreinum tekjum sveitarfélagsins af sölu eða leigu á eignum sveitarfélagsins sem það hefur eignast skv. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 49/1997. Það sem eftir stendur af lánum, í lok lánstíma, fellur niður.

Óútkljáð dómsmál vegna uppsagnar

Í skýringum með ársreikningnum er gert grein fyrir því að fyrrum starfsmaður sveitarfélagsins hefur stefnt sveitarfélaginu vegna ólögmætrar uppsagnar og fer fram á bætur vegna þessa. Sveitarfélagið hefur hafnað bótakröfunni. Málið var tekið fyrir í héraðsdómi þann 10. maí 2021 og bíður nú úrskurðar.

DEILA