Vesturbyggð: aflagjöld af eldisfiski 44% af tekjum hafnarsjóðs

Frá Patrekshöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Aflagjöld af eldisfiski voru langstærsti tekjuliður hafnarsjóðs Vesturbyggðar á síðasta ári. Alls fékk hafnarsjóður aflagjald af 18.702 kg af eldisfiski og var upphæðin samtals 101 milljón króna. Aflagjald af öðrum fiski nam 26 milljónir króna. Samtals skilaði aflagjaldið 127 milljónum af 228 milljóna króna heildartekjum hafnarsjóðs.

Þetta kemur fram í sundurliðun á tekjum hafnarsjóðs árin 2019 og 2020 sem Bæjarins besta hefur fengið hjá Vesturbyggð.

Næstu tekjuliðir voru vörugjöld sem skilaði 36 m.kr. og bryggjugjald 18 m.kr.

Aflagjald af eldisfiskinum var því 44% af heildartekjum hafnarinnar. Yfir árið var gjaldið 5,37 kr/kg af eldisfiski.

Mikil aukning varð í aflagjöldum af eldisfiski frá 2019. Þá nam aflagjaldið 61 m.kr. en í fyrra 101 m.kr Aflagjald af öðrum fiski lækkaði milli ára, var 28 m.kr. árið 2019 en 26 m.kr. í fyrra. Skýringin á hækkun aflagjaldsins um 40 m.kr. er einkum vegna þess að magnið af eldisfiski jókst úr 12,7 þúsund tonn í 18,7 þúsund tonn en einnig varð 11% hækkun á aflagjaldinu pr kg milli ára, úr 4,85 í 5,37.

DEILA