Tónleikar á Snæfjallaströnd

Dalbær á Snæfjallaströnd.

Tónlistartríóið Fáheyrt mun koma fram í Unaðsdalskirkju mánudaginn 19. júlí kl. 15 og flytja þar frumsamin lög við ljóð vestfirskra skálda, svo sem Stein Steinarr, Ólínu Þorvarðardóttur, Höllu skáldkonu Eyjólfsdóttur og Tómas G. Geirdæling.

Fáheyrt skipa Rakel Björk Björnsdóttir leik- og söngkona við Borgarleikhúsið,  Garðar Borgþórsson gítar- og trommuleikari og Ingimar Ingimarsson organisti.  Tríóið verður með tónleika í Steinshúsi kl. 21 sama dag, mánudaginn 19. júlí. Tónleikarnir njóta styrks frá Tónlistarsjóði og Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.

Tónleikar í Dalbæ um verslunarmannahelgina

Kaldalónstónleikar verða í Dalbæ laugardaginn 31. júlí kl 15. Minningarsjóður Sigvalda Kaldalóns stendur að tónleikunum í samstarfi við Snjáfjallasetur til að minnast 75 ára afmælis útgáfu á verkum tónskáldsins. Hallveig Rúnarsdóttir sópran flytur margar helstu perlur Kaldalóns. Hrönn Þráinsdóttir leikur á píanó. Einnig koma fram Dúllurnar,  tveggja kvenna stórsveit sem flytur létt efni af ýmsu tagi. Íris Björg Guðbjartsdóttir leikur á gítar og Salbjörg Engilbertsdóttir leikur á slagverk og báðar syngja. Ávörp flytja Sigvaldi Snær Kaldalóns og Gunnlaugur A. Jónsson.

Dúllurnar.

Sunnudaginn 1. ágúst kl. 15 verður dagskrá í Dalbæ til að fagna útgáfu bókar sem gefin er út í aldarminningu Jóns Hallfreðs Ingvarssonar frá Lyngholti á Snæfjallaströnd. Engilbert S. Ingvarsson segir frá bókinni og Pálmi Gestsson leikari flytur kvæði eftir Jón Hallfreð Engilbertsson. Dúllurnar leika og syngja ásamt Jóni Hallfreð Engilbertssyni og Hallveig Rúnarsdóttir flytur tvö lög eftir Sigvalda Kaldalóns. Hrönn Þráinsdóttir leikur á píanó. Viðburðirnir njóta styrks frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.

Pálmi Gestsson.

Ferðaþjónustan í Dalbæ er opin

Frá og með 19. júlí og til 8. ágúst verður rekin ferðaþjónusta í Dalbæ á Snæfjallaströnd á vegum Snjáfjallaseturs og Sögumiðlunar, netfang olafur@sogumidlun.is. Opið verður kl. 10-20, alla daga vikunnar. Bergljót Aðalsteinsdóttir (gsm 690 4893) mun sjá um ferðaþjónustuna.

Sjá nánar: http://snjafjallasetur.is/

DEILA