Teigsskógur: búið að semja við Gröf

Horft úr Þorskafjörð yfir Teigskóg. Mynd: Vegagerðin.

Vegagerðin og landeigendur Grafar í Þorskafirði hafa náð samkomulagi um vegalagningu í Gufudalssveit en eigendur Grafar voru þeir einu sem ósamið var við. Hefur þar með verið rutt úr vegi síðustu hindruninni í vegagerðinni í Gufudalssveit.

Vegagerðin og landeigendur Grafar hafa átt í viðræðum á árinu með það meðal annars að markmiði að draga úr umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar en þessum viðræðum lauk með undirskrift samnings í dag, þann 23. júlí.

Vegagerðin og eigendur Grafar eru á einu máli að standa vel að verki og vanda frágang eins og kostur er segir í fréttatilkynningu Vegagerðarinnar.  Landeigendur Grafar hafa staðið gegn framkvæmdinni með hagsmuni náttúrunnar að leiðarljósi og verið í forgrunni í þeirri baráttu. Í kjölfar niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi framkvæmdaleyfi hafa þeir hins vegar unnið að því með Vegagerðinni að laga framkvæmdina sem best að landi innan landamerkja Grafar þannig að hún hafi sem minnst inngrip í náttúruna.

DEILA