Snúruflækjur kerfisins

Við skiptum landinu upp í níu löggæsluumdæmi. Til að halda skipulagi. Héraðsdómstólarnir eru reyndar átta. Ekki níu, eins og umdæmi lögreglunnar, heldur átta eins og landshlutar sveitarstjórnarstigsins. Sem tengjast þeim ekki neitt.

Heilbrigðisumdæmi landsins eru sjö. Alls ekki átta eins og landshlutasamtökin eða níu eins og löggæsluumdæmin – heldur sjö. Svo eru kjördæmin auðvitað sex. Ekki fimm eins og vegagerðarsvæðin, ekki sjö eins og heilbrigðisumdæmin, átta eins og landshlutarnir eða níu eins og löggæsluumdæmin – heldur sex. 

Ofan á þetta leggjast svo lóðamörk sveitarfélaga. Þau eru 69 talsins. Þar af eru 26 þeirra í fámennasta kjördæminu. Þéttbýlasta svæði landsins er svo auðvitað skipt upp í sjö sveitarfélög. Öllum til hægðarauka.

Þau eru ekki beint til að einfalda okkur lífið öll þessi mislægu gatnamót kerfisins. Við virðumst vera að reyna að teikna upp einhvers konar snúruflækju. Í nafni skipulags og einföldunar. Reyna að forðast þriðja stjórnsýslustigið eins og heitan eldinn með því að búa til eitthvað enn flóknara.

Ætli það hafi aldrei verið uppi á teikniborðinu að láta þessar línur tala saman? Virka fyrir íbúana frekar en kerfin sjálf.

Í ósamstæðum sokkum

Vandamál tengd kerfum, sem tala ekki saman, lita allan okkar veruleika. Alla anga opinberrar þjónustu. Maður heyrir nær daglega reynslusögur venjulegs fólks sem rekur tærnar í þessa kerfisveggi. Veggi sem eiga ekki að þurfa að flækjast fyrir okkur í nándinni og fámenninu.

Tökum dæmi um nokkrar óþarfa flækjur mislægra kerfishólfa. Í upphafi heimsfaraldurs reyndi á samstarf almannavarna og heilbrigðisþjónustu. Það getur varla hafa verið til einföldunar, í slagnum við veiruna, að umdæmismörk þessara stofnanna liggja yfir landið eins og ósamstæðir sokkar. Hluti Vestfjarða heyrir þannig undir Vesturland og er stýrt frá Akranesi. Hinum hlutanum er stýrt frá Ísafirði. Samband sveitarfélaga skilgreinir Vestfirði sem einn landshluta og svæðaskipting löggæslunnar þekur það svæði allt saman, ólíkt skipulagi heilbrigðismála. En löggæslan teygir sig líka inn á Norðurland vestra. Einn skilgreindur landshluti hefur þannig snertifleti inn á þrjú heilbrigðisumdæmi. Skipulag löggæslumála beygir í austurátt á meðan skipulag heilbrigðismála stefnir rakleitt til suðurs. Engin samræmd lóðamörk sjáanleg.

Á Norðurlandi vestra eru svo rekin landshlutasamtök sem gæta hagsmuna íbúa og sveitarfélaga á svæðinu. Samt eru heilbrigðismálin samrekin til helminga með Norðausturlandi. Af einhverjum ástæðum. Fléttuð inn í allt önnur landshlutasamtök í allt öðru kjördæmi. Það sama á við um skipulag samgöngumála, sem skiptir landinu í fimm hólf. Þvert á hin hólfin.


Blessað báknið

Í vetur sá ég mann á Alþingi klóra sér í höfðinu yfir evrópskri bjúrókrasíu. Sagði hana óskiljanlega, flókna og í raun stórhættulega. Skondið, hugsaði ég. Eins og við séum ekki fullfær um að búa til óskiljanlega kerfisrangala upp á eigin spýtur. Hann ætti að prófa að sækja um framkvæmdaleyfi, stofna fyrirtæki eða sækja um vottorð fyrir barn utan af landi sem þarf að komast til sérfræðilæknis. Dýfa tánum í heimasmíðað snúrufargan þar sem ómögulegt virðist að para saman klær og innstungur.

Það er nefnilega þetta með blessað báknið og málflutning þeirra sem halda að allar okkar lausnir felist í að reita af því fjaðrirnar. Til að gera það betra. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir hefur ekkert með stærð kerfisins að gera. Þetta snýst um það hvernig við teiknum það upp og fyrir hvern það á að virka. Að við missum ekki sjónar af megintilgangi opinberrar þjónustu.  

Okkur hættir til að gleyma notendunum. Festumst í þrasi um pólitísk hugtök sem snúast um eitthvað allt annað en þjónustuna. Teiknum svo upp skipulag sem þjónar aðeins einu tilteknu kerfi í einu afmörkuðu röri, án tillitis til annarra kerfa. Annarrar þjónustu. Náum þess vegna ekki að brjóta niður múra og láta kerfin vinna betur saman.

Þetta er spurning um fókus

Í stað þess að velta okkur stöðugt upp úr því hvernig við getum skorið kerfin niður ættum við auðvitað að synda dýpra. Spyrja lykilspurninga. Fyrir hvern eru kerfin smíðuð? Hver er raunverulegur tilgangur þeirra? Kafa þannig niður á svörin sem leiða okkur að betri opinberum rekstri. Betri þjónustu. Hugtök sem eiga mun oftar samleið en við þorum að viðurkenna. Líka hjá hinu opinbera. Þetta hefur ekkert með sjálft rekstrarformið að gera. Þetta snýst um skipulag og skynsamlega nýtingu fjármuna á forsendum þeirra sem eiga þá.

Að sumu leyti snýst þetta um að færa áhersluna af þeim sem veita þjónustuna og yfir á þá sem þurfa á henni að halda. Opinber kerfi eiga aldrei að snúast um landfræðilega staðsetningu svæðisskrifstofa. Opinber kerfi eiga aldrei að þjóna þeim tilgangi að stjórnmálaflokkar noti þau til að skipta á milli sín brauðmolum. Við verðum að skerpa fókusinn og vera faglegri.

Fólk á að geta gengið að því vísu að lögbundnum rétti þeirra og þörfum sé mætt. Án þess að eiga það á hættu að festast í flækjunni. Mánuðum eða árum saman. Þannig eigum við að nálgast verkefnið. Ekki með tali um útblásið bákn eða með því að pota pólitískum velunnurum í stjórnendastöður. Heldur með því að bæta okkur. Bæta kerfin. Bæta þjónustuna. 

Greiða úr flækjunni og ganga almennilega frá snúrunum þannig að hinir raunverulegu eigendur geti með einföldum hætti fengið þá þjónustu sem kerfunum ber að veita.

Láta kerfin vinna fyrir fólkið – ekki öfugt.

Guðmundur Gunnarsson

Höfundur er oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi

DEILA