Samtals 700 milljónum varið í umferðaröryggisaðgerðir

Vegagerðin leggur mjög mikla áherslu á umferðaröryggi og stöðugt er unnið að endurbótum á vegakerfinu í þeim tilgangi.

Mörg verkefnanna snúa að lagfæringum á umhverfi vega og/eða að uppsetningu vegriða og það er engin tilviljun því meira en helmingur alvarlegustu slysanna á þjóðvegum í dreifbýli verður við útafakstur. Skv. núgildandi veghönnunarreglum skal vera svæði af ákveðinni breidd næst vegi sem er þannig útfært að  þar séu ekki hættur s.s. hættulegar hindranir eða mikill bratti. Þetta svæði kallast öryggissvæði. Þegar farið er í lagfæringar til að tryggja öryggissvæði er uppsetning vegriðs aldrei fyrsti kostur, fyrst er leitað leiða til að lagfæra umhverfi vegarins á annan hátt t.d. með því að draga úr bratta fláa (vegkants) eða lengja of stutt ræsi þannig að kröfur um öryggissvæði séu uppfylltar.  Einnig mætti nefna fyllingu skurða og brottnám stórgrýtis.

Nokkur verkefni á hverju ári felast í því að auka öryggi gangandi vegfarenda, s.s. þar sem þjóðvegur liggur um þéttbýlisstaði á landsbyggðinni. Það er m.a. gert með ýmsum hraðatakmarkandi aðgerðum, s.s. útfærslu öruggari gönguþverana og uppsetningu hraðaviðvörunarljósa.

Meðal þeirra framkvæmda sem unnin verða í ár eru:

Djúpvegur um Skötufjörð, uppsetning vegriðs.

Djúpvegur í Hestfirði, lagfæringar á umhverfi vegar sem felast í endurmótun skeringar í þeim tilgangi að draga úr hættu á grjóthruni.

Djúpvegur Ísafirði, við hringtorg móts við kirkju, bætt lýsing við þrjár gangbrautir.

Flateyrarvegur við innkomu í bæinn, uppsetning hraðaviðvörunarljóss.

Þingeyrarvegur við innkomu í bæinn, uppsetning hraðaviðvörunarljóss.

Drangsnesvegur, hraðahindrandi aðgerðir, annar áfangi.