Ósk um upplýsingar – opið bréf til bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar

Þann 12.maí 2015 óskaði undirritaður eftir nokkrum lóðum til að byggja upp atvinnustarfsemi. Búið er að ljúka við fyrstu tvær og framkvæmdir eru hafnar á því sem eftir er. Tókst loksins eftir langa baráttu við kerfi sem virðist hafa lítin áhuga á uppbyggingu í þessu litla þorpi. Það er önnur saga. Í lok skrifræðis við brotið kerfi en ekki fólk kom fram að byggingarleyfi yrði ekki gefið út nema að greitt yrði fyrirfram milljónir í gatnagerðargjöld. Það hefur verið greitt.

Það sem stemmir ekki er að þó svo að peningurinn sé kominn í bæjarsjóð þá stendur ekki til að gera götu svo starfsfólkið sem ætlar að greiða sína skatta í bæjarsjóð fái aðgengi að sínum nýja vinnustað. Sagt að það sé ekki á fjárhagsáætlun. Ísafjarðarbær hefur haft rúm sex ár til að setja þetta mál á fjárhagsáætlun. Minnt hefur verið á þetta mál ítrekað án viðbragða. Aðgengi starfsmanna að Skólagötu 8 er við Garðastíg en sú gata er einfaldlega ekki til. Hæðarmunur á landi og húsi er um hálfur meter við Stefnisgötu ofl. Ofangreint veit kerfið en verklagið virðist vera að gera ekki neitt til að koma í veg fyrir framfarir og óþarfa vesen athafnamanna hér í þorpinu. Mín upplifun er amk þannig. Rétt er þó að nefna að Rómarstígur var hellulagður en núna vantar Garðastíg ofl.

Unnið hefur verið með brunavarnir og búið er að kosta miklu til að hanna allt eftir opinberum kröfum sem er oftast gott. Neyðarhurðir eiga að opnast út svo að fólk komist ekki út þegar snjóar mikið osfv. Á sama tíma og kerfið setur á okkur kröfur byggðar á bókstafstrú þá er líka enginn brunahani með vatni í Stefnisgötu, Skipagötu eða Skólagötu til að sinna slökkvistarfi. Bókstafstrú á kerfi gildir bara í eina átt. Mælingar á vatnsnotkun segja að það verður ekki til vatn á þessa brunahana né fyrir íbúa. Kerfið veit að þegar starfsemi hefst í þessum nýju húsum að þá verður skortur á vatni á Suðureyri.

Þetta er ekki í fyrsta eða annað skiptið sem undirritaður hefur þurft að standa sjálfur í gatnagerð í sveitarfélaginu. Síðast má nefna að undirritaður greiddi alfarið fyrir götuna Brekkustíg og greiðir sjálfur fyrir snjómokstur í götunni. Líklega eini íbúi Ísafjarðarbæjar sem þarf að greiða þennan skatt. Með stolti hef ég líka tryggt snjómokstur á götunni því hún sinnir líka erindi þess að vera neyðarútgangur fyrir Félagsheimili Súgfirðinga. En líklega er það hlutverk kerfis en ekki einstaklings. En það er svo sérstakt að allar fjórar götur í þorpinu sem enda á stígur eru ekki mokaðar án skýringa. Okkar nýi vinnustaður er við A-stíg og Garðastíg svo hvernig á að taka á því verður áhugavert að heyra.

Mínar opinberu spurningar eru bara tvær að sinni.

  1. Gilda aðrar reglur í sveitarfélaginu um götur, stíga sem eru götur, gatnagerð og snjómokstur á Suðureyri ?
  2. Hvenær og hvernig má gera ráð fyrir aðgengi að þessum nýja vinnustað á Suðureyri, eða eigum við bara að gera götu sjálf og moka þar snjó eins og vaninn hefur verið ?

Afsakið bréfaskrifin en aðrar leiðir til að fá svör frá stjórnendur Ísafjarðarbæjar hafa lítin árangur borið.

Suðureyri 12.júlí 2021

Virðingafyllst

Elías Guðmundsson

Brekkustíg 7, Suðureyri

DEILA