Merkir Íslendingar – Guðmundur Jón Matthíasson

Guðmundur Jón Matthíasson fæddist á Þingeyri við Dýrafjörð 22. desember 1959.

Foreldrar Guðmundar Jóns voru Camilla Sigmundsdóttir, húsmóðir, f. 5.8. 1917, d. 14.4. 2012, og Matthías Guðmundsson, vélsmiður og véltæknifræðingur, f. 16.9. 1911, d. 3.6. 1995.

Systkini Guðmundar Jóns eru:

Jónas, f. 7.5. 1944, og Gerður, f. 10.7. 1954.

Guðmundur Jón kvæntist 3. apríl 1986 æskuunnustu sinni og jafnöldru, Margréti Jónsdóttur, f. 26.12. 1959.

Margrét fæddist og ólst upp í Bolungarvík, dóttir hjónanna Jónínu Rannveigar Kjartansdóttur, f. 29.9. 1940, d. 27.11. 2015, og Jóns Eggerts Sigurgeirssonar, f. 17.10. 1937, d. 15.12. 1995.

Synir þeirra hjóna eru: 1) Matthías, f. 1.8. 1980, kvæntur Svanhildi Björk Jónsdóttur, f. 12.10. 1980.  2) Henrý, f. 20.8. 1992.

Guðmundur Jón lauk stúdentsprófi 1979 frá Menntaskólanum á Ísafirði. Milli skólavetra vann hann í vélsmiðju afa síns og alnafna á Þingeyri.

Síðan tók við nám í véltæknifræði við Odense Teknikum, en þaðan útskrifaðist hann 1983 og réðst í kjölfarið til starfa hjá ráðgjafarfyrirtækinu J.G. Hvirvelkær A/S í Óðinsvéum. Starfaði Guðmundur Jón þar fram til ársins 1986 að haldið var til heimalandsins og ráðist til starfa hjá Varmaverki ehf., nýstofnuðu fyrirtæki Jónasar bróður hans. Þar starfaði hann í tæp sjö ár, eða fram til 1993 að hann tók sér fyrir hendur framkvæmdastjórn í útibúi norska fyrirtækisins Kværner Fisktækni, sem síðar varð MMC Fisktækni og enn síðar Optimar Iceland.

Guðmundur Jón keypti Optimar ásamt félögum sínum árið 2003 og veitti fyrirtækinu forstöðu til ársins 2015, að hann hætti vegna heilsubrests.

Guðmundur Jón Matthíasson lést á líknardeild LSH í Kópavogi þann 10. júlí 2016, á 57. aldursári.

Útför Guðmundar Jóns fór fram frá Grafarvogskirkju  19. júlí 2016.

Skráð af Menningar-Bakki.

DEILA