Mælt með leyfum fyrir veitingastaði og gistihús í Ísafjarðarbæ

Hafnarstræti 4 , Flateyri.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur afgreitt fimm umsagnir um umsóknir um veitingstaði og gistihús í sveitarfélaginu. Það er embætti sýslumannsins á Vestfjörðum sem veitir leyfin en aflar umsagna áður frá nokkrum opinberum aðilum, þar með talið sveitarfélaginu.

Áður hefur verið greint frá því að mælt er með því að Kómedíuleikhúsið fái leyfi til þess að reka veitingastað með áfengisveitingum fyrir 40 manns í Haukadal og að Vagninn Flateyri fái einnig leyfi fyrir veitingastað í flokki III fyrir 150 manns.

Því til viðbótar afgreiddi bæjarráðið umsögn sína um þrjár aðrar umsóknir og mælir með þeim öllum.

Það er fyrst erindi frá Gautshamar vegna veitingastaðarins Fjósið í Arnardal í flokki III, sem er umfangsmiklir áfengisveitingastaðir, svo sem þar sem leikin er hávær tónlist og staðir sem kalla á meira eftirlit og/eða löggæslu. Þar er veitt leyfi fyrir 160 manns.

Iceland ProFishing ehf., sækir um leyfi til að reka gististað í flokki II fyrir sjóstangveiðihús að Melagötu 1-9, Flateyri og Höfðastig 1-3, Aðalgötu 11 og 31, Suðureyri. Bæjarráðið mælir með því að leyfi verði veitt fyrir fjóra í hverju húsi.

Loks var erindi frá Litla Kletti ehf., um leyfi til að reka veitingastaðinn í flokki II (umfangslítill áfengisveitingastaður) að Hafnarstræti 4, Flateyri ( Bryggjukaffi). Mælt er með leyfi fyrir 34 manns.

DEILA