Ísafjarðarbær: sækir um framlengingu á byggðaþróunarverkefni á Þingeyri

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur falið bæjarstjóra að sækj um til Byggðastofnunar um framlengingu um eitt ár, til 2022, á byggðaþróunarverkefninu Öll vötn til Dýrafjarðar, en það er rekið undir merkjum brothættra byggða og fær fjármagn frá því verkefni.

Það var Verkefnisstjórn verkefnisins sem óskaði eftir þessu og skýrði mál sitt fyrir bæjarráði í vikunni. Verkefnið er samstarfsverkefni heimamanna, Ísafjarðarbæjar, Byggðastofnunar og Vestfjarðastofu og er verkefnisstjórn skipuð fulltrúum þessara aðila. Verkefnið er til 3ja ára með möguleika á fjórða árinu ef á þarf að halda. 

Verkefninu hefur fylgt fjármagn sem nýtt hefur verið til úthlutunar styrkja til ýmissa samfélagsverkefna ásamt verkefna sem stuðla að atvinnuuppbyggingu.  Úthlutað hefur verið um 35 m.kr. í styrki.

Verkefnisstjóri er Agnes Arnardóttir.