Hörður Ísafirði vann Björninn

Hörður Ísafirði lék seinni leik sinn í suðurferðinni um helgina í gær. Leikið var við Björninn á Fjölnisvellinum í Grafarvoginum. Staðan í hálfleik var markalaus en leikmenn komu með markaskóna reimaða til seinni hálfleiks.

Fyrst skoruðu svartstakkarnir í Birninum en í kjölfarið fylgdi fimm mörk Vestfirðinganna og leiknum lauk með öruggum sigri þeirra 5:1.

Fyrst skoraði Einar Óli Guðmundsson og jafnaði leikinn. Strax í kjölfarið bætti Felix Rein Grétarsson öðru við. Þá var komið að Guðmundi Páli Einarssyni og Sigurður Arnar Hannesson gerði svo tvö mörk seint í leiknum.

Fjögur lið eru í einum hnapp efst í riðlinum í 4. deild C og keppa um tvö sæti sem gefa rétt til þátttöku í úrslitakeppni um sæti í 3. deild.

Knattspyrnufélag Árvalla, KÁ, í Hafnarfirði er efst með 27 stig. Þá kemur Ýmir úr Kópavogi með 26 stig. Hörður Ísafirði er með 25 stig og öll þessi þrjú félög hafa leikið 11 leiki. Í fjórða sæti er svo Álftanes með 23 stig, en á einn leik til góða og gæti komist í 26 stig ef það vinnur þann leik.

Alls eru leiknar 16 umferðir i riðlinum.

DEILA