Hafransóknastofnun óskar eftir upplýsingum um veidda hnúðlaxa

Hnúðlaxar eru nú byrjaðir að ganga, og veiðast í ám þetta sumarið. Hafrannsóknastofnun barst hnúðlax sem Viktor Guðmundsson veiddi í Sogi við Syðri-Brú. Fiskurinn var hrygna 49,8 cm löng og 1596 g að þyngd. Hrygnan var komin nærri hrygningu en hrygningartími hnúðlaxa er mun fyrr en annarra laxa. Eins og sjá má á myndum líkjast hnúðlaxahrygnur sjóbleikju við fyrstu sýn en hnúðlax er með dröfnur í bakugga og á sporði sem nota má til aðgreiningar tegundanna.

Hnúðlax (Oncorhynchus gorbuscha), sem einnig er nefndur bleiklax, tilheyrir ættkvísl kyrrahafslaxa og eru náttúruleg heimkynni tegundarinnar við Kyrrahafið frá Asíu til Norður Ameríku. Stofnar hnúðlaxa eru þeir stærstu af tegundum kyrrahafslaxa. Hnúðlax er fremur smávaxinn að stærð miðað við aðrar tegundir kyrrahafslaxa.

Mikilvægt er að auka þekkingu á dreifingu, líffræði og áhrifum hnúðlaxa. Óskar Hafrannsóknastofnun eftir því að fá sýni af hnúðlöxum og best er að fá heila fiska til rannsókna, mega vera frosnir. Sýni verða þá tekin til rannsókna m.a. á vaxtarhraða, kynþroska og erfðafræði. Veidda hnúðlaxa þarf að skrá í veiðibók eins og aðra veiði þar sem fram koma upplýsingar um veiðistað, dagsetningu, lengd og þyngd.