Hábrún og ÍS47 ehf í eigu sömu aðila

Kvíar út af Skutulsfirði. Mynd: Hábrún.

Fyrir skömmu var tilkynnt um kaup ÍV SIF Equity Farming ehf. (ÍSEF), sem er eignarhaldsfélag í eigu hóps íslenskra fjárfesta sem hefur að meginmarkmiði að byggja upp eignasafn í fiskeldi og tengdri starfsemi á meirhluta hlutafjár í fiskeldisfyrirtækinu ÍS47 ehf. Það er svo fyrirtækið íslensk verðbréf sem heldur utan um rekstur ÍSEF og leggur því til sérhæfða þekkingu á fjárfestingum og rekstri.

Í bréfi íslenskra verðbréfa til bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, sem greint hefur verið frá á Bæjarins besta, er upplýst að viðkomandi sjóður á vegum Íslenskra Verðbréfa er að ljúka kaupum á ráðandi hlut í Hábrún hf. í Hnífsdal, sem einnig er fiskeldisfyrirtæki. Ekki er nánar tilgreint hver þessi viðkomandi sjóður er, en telja verður líklegt að umsé að ræða ÍSEF sjóðinn sem keypti meirihluta hlutafjár í ÍS47 ehf.

Sjóðurinn er skráður til heimilis á Akureyri og Jón Helgi Pétursson er stjórnarformaður. Raunverulegur eigandi með óbeinu eiganrhaldi á 50% hlutafjár er gefinn upp sem Þorbjörg Stefánsdóttir. Samkvæmt heimildum Bæjarins besta er fyrirtækið Novator einn af stærri eigendum. Raunverulegur eigandi að því er Björgólfur T. Björgólfsson.

Bæði fyrirtækin ÍS47 og Hábrún hafa leyfi til eldis í sjó á regnbogasilungi, annað í Ísafjarðardjúpi og hitt í Önundarfirði. Þá er Hábrún með óafgreidda umsókn um laxeldi í Djúpinu.

DEILA