Gönguhátíð í Súðavík um verslunarmannahelgina 2021

Frá Gönguhátíð í Súðavík. Einar Skúlason í rauðum jakka. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Um verslunarmannahelgina 30. júlí – 2. ágúst verður skemmtileg gönguhátíð í Súðavík. Fjölbreyttar göngur fyrir fólk á öllum aldri og fjörugar uppákomur á kvöldin.  Athugið sérstaklega leiðbeiningar varðandi Covid neðan við dagskrána.

Gönguhátíðin er haldin í samvinnu Göngufélags Súðavíkur, Súðavíkurhrepps og gönguklúbbsins Vesens og vergangs.

Vegna Covid: Minnt er á grímuskyldu er ef ekki er hægt að tryggja 1 m regluna innandyra. Ekki verða seld fleiri en 150 armbönd til að vera innan við 200 manna viðmið. Þá verður hámarksfjöldi í hverja göngu 50 manns og hver og einn gætir þess að halda 1 m regluna. Sérstaklega er fjallað um sóttvarnarreglur vegna Covid neðan við dagskrána.

Dagskrá

Fimmtudagur 29. júlí

Kl. 18 – 23           Búlgarskt þema í Melrakkasetrinu

Búlgarskur matur í boði á Melrakkasetrinu kl. 18-20. Einnig er hægt að panta bjór, hvítt og rautt. Áður auglýst barsvar (pub quiz) fellur niður.  

Föstudagur 30. júlí

Kl. 8:30               Álftafjarðarheiði milli Álftafjarðar og Önundarfjarðar (þrír skór)

Gengið verður milli Álftafjarðar og Önundarfjarðar um Álftafjarðarheiði (Heiðarskarð). Þetta er gömul þjóðleið sem var nýtt af vermönnum og öðrum sem þurftu að fara á milli fjarða. Mæting við búðina í Súðavík kl: 08:30. Fararstjóri Anna Lind Ragnarsdóttir. Gengið er að hluta  í hrísi og hluti leiðarinnar er nokkuð grýttur. Vegalengd 15 km, uppsöfnuð hækkun 700 m, göngutími 7 tímar. Munið eftir grímu af því að þátttakendur verða saman í bílum í góða stund.    

Kl. 19:30             Gönguhátíðin sett og fiskisúpuveisla

Mæting við Kaupfélagið og verður fiskisúpa í boði í einnota ílátum – Friðrik Sigurðsson (Iddi) eldar. Ókeypis fyrir þá sem eru með armbönd, en kostar 700 fyrir aðra (innifalin er ítrekuð ábót) og einnig verður hægt að kaupa drykki og sitthvað fleira í kaupfélaginu.

Kl. 21                   Brenna

Kl. 20:50 verður stutt skrúðganga úr matarveislunni yfir að brennunni þar sem kveikt verður í bálkestinum kl. 21. Við brennuna verður hópsöngur.

Laugardagur 31. júlí

Kl. 8-10               Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti á Kaupfélaginu/Jóni Indíafara

Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti er sígildur og góður morgunverður og kemur göngufólki af stað og í gott skap. Skammturinn er á kr. 700 en frítt er fyrir þá sem eru með gönguarmband. Vegna Covid verður hafragrautur afgreiddur í einnota bollum.

Kl. 9                     Súðavíkurfjall (þrír skór)

Gengið er frá Arnardal og nokkurn bratta upp á Súðavíkurfjall og komið niður Traðagilshvílft að Súðavík. Fólk kemur saman við Kaupfélagið í Súðavík og lagt er af stað kl. 9 á eigin bílum og þeim lagt við ferðaþjónustuna hjá Heimabæ í Arnardal.  Þeir sem koma frá byggðum Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkur geta keyrt beint í Arnardal og greitt fararstjóra í reiðufé.  Ofan af Súðavíkurfjalli er mikið og gott útsýni yfir Djúpið. Fararstjórar eru Anna Lind.  Vegalengd ca 10 km og uppsöfnuð hækkun ca 700 m. Göngutími er ca 6-7 tímar. Eftir göngu þarf að skipuleggja akstur með bílstjórana til að sækja bílana í Arnardal. Munið eftir grímu.

Kl. 17                   Síðdegisganga um þorpið (einn skór)

Fjallað um þætti úr sögu Súðavíkur m.a. fyrstu hvalveiðistöðina á Íslandi á Langeyri, svæðið þar sem snjóflóðið féll 16. janúar 1995, Raggagarð og fleira. Hist við Kaupfélagið í Súðavík kl.17:00. Vegalengd ca 5 km. Göngutími 1-2 tímar. Leiðsögn: heimamaður.

Kl. 19:00             Sameiginlegt grill í Raggagarði

Grillin verða orðin heit kl. 19:00 og hægt að koma með eigið kjöt á grillið. Spiluð verður létt tónlist og tilvalið að hreyfa sig í takt. Í boði verða hamborgarar fyrir þá sem eru með armbönd. Munið eftir grímu ef aðstæður verða til þess að ekki er hægt að tryggja 1 m fjarlægð.

Áður auglýstur dansleikur í Samkomuhúsinu fellur niður vegna Covid.

Sunnudagur 1. ágúst

Kl. 8-10               Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti á Kaupfélaginu/Jóni Indíafara

Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti er sígildur og góður morgunverður og kemur göngufólki af stað og í gott skap. Skammturinn er á kr. 700 en frítt er fyrir þá sem eru með gönguarmband. Vegna Covid verður hafragrautur afgreiddur í einnota bollum.

Kl. 9                     Galtarviti um Bakkaskarð  (þrír skór)

Komið saman við Kaupfélagið í Súðavík, sameinast í bíla og keyrt í Skálavík. Komið er við á Bónusplaninu á Ísafirði kl. 9:30. Lagt er af stað úr Skálavík um tíuleytið og gengið um Bakkaskarð að Galtarvita. Vitinn stendur á fögrum stað í Keflavík á milli fjallanna Öskubaks og Galtar. Vegalengd 12 km og 880 m uppsöfnuð hækkun. Göngutími ca 6-8 tímar. Leiðsögn: Anna Lind. Munið eftir grímu vegna bílferða.

Kl. 11                   Valagil  (einn skór)

Keyrt frá Kaupfélagsplaninu inn í botn Álftafjarðar og lagt á bílastæði á Seljalandi en þar búið fram til 1972-4. Tvíþætt ganga – annars vegar styttri ganga að Valagili og hins vegar áfram og upp með gljúfrunum. Það hefur lengi verið vinsælt að ganga í hið fallega Valagil og sem flestir hvattir til að koma með og hlusta á söguna af Bóthildi. Leiðsögn Einar Skúlason. Styttri gangan er ca 4 km og lengri gangan um 10 km. Munið eftir grímu vegna bílferða.

Kl. 12                   Ögurganga (tveir skór)

Gengið frá Ögri og upp á útsýnisstað þar sem má sjá glæsilegt útsýni yfir Skötufjörð, Vigur, Ísafjarðardjúp og Æðey. Þarna eru einnig mestu hvalaslóðir Djúpsins og algengt að sjá hnúfubaka í ætisleit. Verð fyrir manninn er kr. 1500 og er innifalið að fá kaffi/te/kakó og kökusneið í lok göngu á kaffihúsinu í Ögri. Hist er við samkomuhúsið í Ögri, hægt að leggja bílum þar og lagt af stað kl. 12. Gangan tekur um tvo tíma með stoppum.  Leiðsögn: Guðfinna Hreiðarsdóttir. Vegalengd: ca 6 km og hækkun 250 m. Athugið að það tekur rúman klukkutíma að keyra frá Súðavík að Ögri.

Kl. 19                   Alþjóðleg súpuveisla og Karaoke í Kaupfélaginu

Alþjóðleg súpuveisla verður í og við Kaupfélagið. Afgreitt verður í einnota ílátum. Áður auglýst Karaoke fellur niður vegna Covid.

Mánudagur 2. ágúst

Kl. 8-10               Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti á Kaupfélaginu/Jóni Indíafara

Hafragrautur með lifrarpylsu og lýsisskammti er sígildur og góður morgunverður og kemur göngufólki af stað og í gott skap. Skammturinn er á kr. 700 en frítt er fyrir þá sem eru með gönguarmband. Vegna Covid verður hafragrautur afgreiddur í einnota bollum.

Kl. 9                     Morgunganga á Kofra (þrír skór)

Komið saman við Kaupfélagið og í sameinast í bíla. Keyrt af stað kl. 9. Gangan getur verið áskorun fyrir lofthrædda. Sögustund verður á toppnum um kraftinn í Kofra. Hámark 30 manns. Vegalengd: 3 km. Hækkun 600 m, Göngutími: 5 tímar.  Leiðsögn: Anna Lind. Munið eftir grímu í bílferð.

COVID

Í gildi eru sóttvarnarreglur og miðað við að óskyldir aðilar haldi ávallt 1 m fjarlægð. Ef ekki er hægt að tryggja 1 m fjarlægð þá er grímuskylda. Gríma er afhent með hverju gönguarmbandi og einnig verða brúsar með sótthreinsivökva. Þátttakendur eru beðnir um að vera með eigin sótthreinsivökva í göngunum og tiltæka grímu ef bíl er deilt. Réttur er áskilinn til að breyta dagskrá enn frekar, fella niður eða laga einstaka liði að reglum eða hætta alfarið við hátíðina ef sóttvarnarreglur krefja.

Um göngurnar

Almennt séð eru fjöll og heiðar á þessum slóðum grýtt. Þannig er um flestar göngurnar nema láglendisgöngur. Gott er að vera með göngustaf eða stafi og gæta þess þá að hafa lykkjuna ekki utan um úlnliði. Þá er gott að vera í gönguskóm með góðu gripi á sóla. Mikilvægt er að velja göngur við hæfi og nota vegalengd og hækkun á leið sem mælikvarða.

Almennir fyrirvarar gilda um göngur út frá veðri og aðstæðum. Ef fella þarf niður göngu eða göngur vegna slíks þá er stefnt á að vera með aðrar göngur í staðinn.

Þátttakendur mæta í göngur á eigin ábyrgð og er bent á að hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.

Þjónusta

Opið verður í Kaupfélaginu frá kl. 8 á laugardag og sunnudag, annars er hefðbundinn afgreiðslutími.

Melrakkasetrið verður opið daglega og hægt að fá kaffi og nýbakað til kl. 18. Hoppikastali og fleira skemmtilegt á laugardag og sunnudag (eingöngu fyrir yngstu kynslóðina vegna Covid).  

Raggagarður er opinn með öll sín skemmtilegu leiktæki.

Verðskrá:

Forsöluverð á gönguarmbandi til 30. júlí kr. 7.000, smellið hér til að kaupa armband (verður afhent í Súðavík): https://paymentweb.valitor.is/Tengill/in3ahq

Eftir 30. júlí mun armbandið kosta kr. 8.000.

Innifalið í gönguarmbandi eru allar göngurnar, hafragrautur á morgnana með lýsi og lifrarpylsu og kaffi og fiskisúpa á föstudagskvöldinu og gleðigrill við Raggagarð laugardagskvöldinu.

Athugið að ganga í Ögri er ekki innifalin í armbandi og mögulegar ferðir í Vigur eru ekki innifaldar.

Verð í styttri göngur er kr. 1500.

Verð í lengri göngur er kr. 3000.

Verð á gönguarmbandi er kr. 8.000

Verð á gönguarmbandi fyrir 16-18 ára og elli- og örorkulífeyrisþega kr. 4000

Verð á gönguarmbandi fyrir 6-15 ára kr. 1500

Gönguarmband kostar ekkert fyrir leikskólaaldur.

Miðstöð gönguhátíðarinnar er í Kaupfélaginu í Grundarstræti og þar verður hægt að fá upplýsingar um hvaðeina sem tengist gönguhátíðinni, kaupa armband (og fá afhent fyrirframgreitt armband) eða aðgang að einstökum göngum, fá upplýsingar um dagskrá, ráðgjöf um búnað, borða hafragraut á morgnana og drekka kaffi og te allan daginn og fara í fiskisúpuveislu á föstudagskvöldinu og alþjóðlega súpuveislu á sunnudagskvöldinu.

Aðrar gönguleiðir

Hægt er að prófa ýmsar aðrar gönguleiðir á svæðinu með Wapp-Walking app. Gönguleiðir eru í Heydal, Vatnsfirði, á Hvítanesi við Skötufjörð, í Hestfirði, í Álftafirði og þrjár leiðir eru í Skutulsfirði og nokkrar leiðir við Korpudal í Önundarfirði og í Bolungarvík og í Dýrafirði.

Aðstandendur hátíðarinnar:

Í forsvari fyrir gönguhátíðina er Einar Skúlason – GSM 663 2113, einnig gefur Anna Lind fararstjóri og skólastjóri upplýsingar í GSM 893-4985 og Bragi Þór Thoroddsen sveitarstjóri.

Gönguklúbburinn Vesen og vergangur er á Facebook og með rúmlega 15.000 meðlimi. Farið er í ca 3-5 gönguferðir á viku. Forsvarsmaður er Einar Skúlason: https://www.facebook.com/groups/vesenogvergangur/

Göngufélag Súðavíkur stendur fyrir reglubundnum gönguferðum í Álftafirði og víðar. Formaður er Barði Ingibjartsson.

Súðavíkurhreppur er sveitarfélag við Ísafjarðardjúp og nær frá Ísafjarðarbotni að Súðavíkurhlíð við Álftafjörð.

Einnig er samstarf við Ferðafélag Ísfirðinga sem stendur fyrir fjölbreyttri göngudagskrá allt árið.

Réttur er áskilinn til að breyta um áætlun vegna veðurs. Ef aðstæður eru varasamar á fjöllum, verður boðið upp á láglendisgöngur í staðinn. Fólk tekur þátt í gönguferðum á eigin ábyrgð og er þátttakendum bent á að hafa ferða- og slysatryggingar í lagi.

DEILA