Flateyri: ÍS47 ehf gerir athugasemdir við áform um laxasláturhús

Frá Flateyri. Aldan ÍS 47 er í eigu ÍS 47 ehf. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Halldór Gunnlaugsson og Hrafn Gunnarsson , f.h. ÍS 47 hf. og Íslenskra verðbréfa hf hafa ritað bæjarráði Ísafjarðarbæjar bréf og gera alvarlegar athugasemdir við hugmyndir Arctic Fish og Arnarlax um byggingu laxasláturhúss á Flateyri. Segir í bréfinu að 30.000 – 40.000 tonna sláturhús myndi gera uppbyggingaráform fyrirtækisins í Önundarfirði að engu.

ÍS 47 hefur í dag rekstrarleyfi fyrir 1.000 tonnum af regnbogaeldi í Önundarfirði og starfsleyfi fyrir 1.200
tonnum. Félagið hefur stundað eldi í firðinum um áraraðir og er stórhuga í stækkunaráformum og hyggst
sækja um leyfi til að fullnýta burðarþol fjarðarins sem er 2.500 tonn. Þá hyggst félagið óska eftir endurskoðun Hafrannsóknarstofnunnar á burðarþoli Önundarfjarðar sem er mjög lágt og gerir sér vonir um að það verði aukið upp í 10.000 tonn.

Gangi það eftir gæti félagið verið með upp undir 100 starfsmenn eftir 8-10 ár. Þá kemur einnig fram í erindinu að félagið áætlar að fjárfesta fyrir um 15-20 ma.kr á næstu 8-10 árum gangi áætlanir um frekari leyfisveitingar eftir.

Benda á Suðureyri eða Ísafjörð

ÍS 47 bendir bæjaryfirvöldum á það að kynna sér þetta mál mjög vel frá öllum hliðum því áhrifin eru víðtæk. „Nærtækast væri fyrir bæjaryfirvöld að beina félögunum að staðarvali eins og Suðureyri, en Súgandafjörður hefur ekki verið metin til burðarþols, hentar illa til eldis og ólíklegt að fiskeldi verði starfrækt í firðinum. Þá er samkvæmt okkar heimildum á Suðureyri tiltæk lóðaúrræði og vilji aðila á því svæði til samstarfs um slíkt verkefni. Einnig má benda á að
Ísafjörður hlýtur að vera augljós kostur með tilliti til lóða, vinnuafls, flutninga ofl.“

ÍS47 hefur kæruaðild og getur haft uppi andmæli

Í niðurlagi bréfsins er áréttað að ÍS47 getur haft uppi andmæli og getur kært áformin um sláturhús á Flateyri á mörgum stigum.

„ÍS 47 mun í öllu falli verja lögmæta hagsmuni sína í Önundarfirði og á Flateyri og grípa til þeirra réttarúrræða sem fyrir hendi eru, ef nauðsyn krefur. ÍS 47 áskilur sér allan rétt af þessu tilefni, þ.á.m. til skaðabóta, fari svo að stjórnvaldsákvarðanir Ísafjarðarbæjar valdi félaginu tjóni.“

Bæjarráðið leggur áherslu á í bókun sinni að engin formleg umsókn liggi fyrir og að bærinn muni virða lög og reglur.

„Atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu í tengslum við aukin umsvif í fiskeldi ber að fagna, sama hvaða fyrirtæki eða einstaklingar eiga þar hlut að máli. Hvað varðar þær ábendingar sem koma fram í framangreindu erindi er rétt að benda á að engin formleg umsókn liggur fyrir hjá Ísafjarðarbæ varðandi t.d. lóð undir sláturhús á Flateyri eða aðrar umsóknir í tengslum við áformin sem snúa að Ísafjarðarbæ. Málið er því nákvæmlega á þeim stað sem lýst var á fundi með fulltrúum ÍS47 og birst hefur í fjölmiðlum um að ákvörðun um staðarval á sláturhúsi liggur ekki fyrir.
Eins og fram kemur í framangreindu erindi er umrædd framkvæmd háð margskonar lögum, reglugerðum og leyfum sem eftirlitsstofnanir hafa með höndum. Ísafjarðarbær mun að sjálfsögðu virða öll þau lög og reglur sem snúa að bæjarfélaginu í framangreindu máli komi til þess að Flateyri verði fyrir valinu. Bæjarráð óskar ÍS47 velfarnaðar í sinni uppbyggingu og vonar að starfsemi fyrirtækisins blómstri í framtíðinni og verði innspýting í atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu. Ísafjarðarbær mun koma sjónarmiðum ÍS 47 hf. og Íslenskra verðbréfa hf. á framfæri til þar til bærra aðila.“

DEILA