Dolly hjálpar okkur úr kófinu – aftur

Hjartanlega velkomið til okkar, sumarið 2021! Loksins getum við aftur mætt á tónleika, leiksýningar, listasýningar, íþróttaviðburði og í veislur og sem betur fer er af nógu að taka. Þetta bólusetta sumar hefur byrjað vel og stefnir hreinlega í að verða algjör gleðisprengja.

Einn þeirra fjölmörgu viðburða sem framundan er á stór-Hnífsdalssvæðinu er söngleikurinn 9 til 5 sem frumsýndur verður í Edinborgarhúsinu á Ísafirði föstudaginn 9. júlí. Söngleikurinn byggir á samnefndri stórmynd frá 1980 og er með tónlist hinnar dásamlegu Dolly Parton (sem studdi einmitt dyggilega við rannsóknir á Moderna bóluefninu, takk fyrir það). 

Það sem vekur kannski mesta athygli við þessa uppsetningu er að að henni standa ungir og öflugir Vestfirðingar sem sjá ekki aðeins um leik, söng og hljóðfæraleik heldur einnig með öllu um leikstjórn, tónlistarstjórn og sýningarstjórn. Þrátt fyrir ungan aldur hafa þau öll mikla reynslu af tónlistar- og leiklistarstarfi í gegnum listaskóla og leikfélög í Ísafjarðarbæ, sem sýnir og sannar hversu mikilvægt (og skemmtilegt) það er að búa í samfélagi þar sem fólki gefst tækifæri til að vera virkir þátttakendur í menningarviðburðum frá unga aldri.

Ég hlakka til að sjá þau stíga á svið um helgina og hvet bæjarbúa og gesti eindregið til að tryggja sér miða á einhverja af þeim sex sýningum sem í boði.

Tinna Ólafsdóttir, sérlegur aðdáandi menningarviðburða á Vestfjörðum

DEILA