Byggðasafn Vestfirðinga varðveitir bækur Lestrarfélags Grunnavíkur

Þegar byggð lagðist af í Grunnavíkurhreppi var bókasafn Lestrarfélags Grunnavíkur flutt til Ísafjarðar og hefur verið geymt þar. Safnið telur liðlega 900 bækur.

Nýlega óskaði Safnahús Ísafjarðar eftir því við Grunnvíkingafélagið að bækurnar yrðu teknar aftur og hafði félagið látið félagsmenn vita af því og að þeir gætu fengið bækur úr safninu til eignar.

Þá gerðist það að Jóna Símonía Bjarnadóttir sagnfræðingur og forstöðumaður Byggðasafns Vestfjarða fékk fregnir af þessu og tók málin í sínar hendur. Hún vildi fá allt safnið og geyma það í nýja safnahúsinu í Neðstakaupstað. Jóna Símonía telur safnið vera einstakt heildstæðasta safn byggðarlags sem lagst hefur af.

Forsvarsmenn Grunnvíkingafélagsins á Ísafirði urðu þessum málalokum afar fegnir.

Flæðareyrarhátíð frestað öðru sinni

Flæðareyrarhátíðinni sem Grunnvíkingafélagið stendur fyrir hefur verið frestað til næsta árs og verður dagana 7. – 10. júlí 2022. Þetta er í annað sinn sem hátíðinni er frestað en hún átti upphaflega að vera sumarið 2020. Það er að sjálfsögðu kórónuveirufaraldurinn sem setur þetta strik í reikninginn.

Flæðareyri stendur við Leirufjörð í Jökulfjörðum fyrir opnum Hrafnfirði og þar reisti Ungmennafélagið Glaður í Grunnavíkurhreppi samkomuhús  upp úr 1930. Átthagafélagið á Ísafirði hefur haldið húsinu við af miklum myndarbrag. Fjórða hvert ár er haldið átthagamót Grunnvíkinga að Flæðareyri. Fyrsta mótið var haldið 1969 og fyrstu skiptin var það á þriggja ára fresti en síðan var því breytt. Hafa alls verið haldnar þrettán hátíðir eftir því sem næst verður komist.  Mikill fjöldi sækir hátíðina hvert sinn og skipir fjöldi þátttakenda hundruðum.