Bolafjall: framkvæmdar hafnar við útsýnispallinn

Frá Bolafjalli. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Framkvæmdir eru hafnar við útsýnispallinn sem setja á bjargið í rúmlega 600 metra hæð. Búið er að hreinsa jarðveg af berginu og búið að bora fjölmarga bolta inn í bergið.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík sagði í samtali við Bæjarins besta að verkið hefði aðeins tafist en hann væri samt bjartsýnn á að því lyki í haust og að pallurinn yrði opnaður með pompi og prakt í haust.

Bolungavíkurkaupstaður stendur fyrir framkvæmdinni og fékk til verksins 160 m.kr. styrk frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Jón Páll sagði að pallurinn sjálfur væri aðeins fyrsta skrefið í uppbyggingu í innviðum sem tengist þessum ferðamannastað. Næsta skref væri að stofna sérstakt þróunarfélag sem fengi það verkefni að koma með leiðir til þess að gera Bolafjall að sjálfbærum áfangastað. Þar sem ákveðið væri að ekki verði tekið gjald fyrir að fara út á pallinn né heldur að fara upp á fjallið þarf að ákveða aðra uppbyggingu á fjallinu sem skila mun tekjum sem standi undir kostnaðinum við þjónustuna.

Þá sagði Jón Páll Hreinsson að það þyrfti að byggja upp vörumerkið Bolafjall sem myndi ekki aðeins skila ferðamönnum til Bolungavíkur heldur draga þá til Vestfjarða og hefði þannig þýðingu fyrir allt svæðið.

DEILA