Uppskrift vikunnar

Í tilefni Sjómannadagsins finnst mér sjálfsagt að vera með fiskiuppskrift. Þessi uppskrift kemur upprunalega frá Berglindi Guðmundsdóttur.

Eins og hvað mér finnst soðning í gamla góða pakkanum góð, verður að vera hamsatólg í mínum huga en það eru hálfgerð helgispjöl hérna fyrir vestan svo ég tek fram að ég get alveg notast við vestfirska hnoðmör.

En þar sem þessa helgi er nú hátíð er hér uppskrift af ýsu í sparifötunum. Og þó ýsan sé í sparifötunum er frábært að einungis tekur 15 mín að elda hana.

Þó svo ég seti þessi krydd þá hef ég oft bara notað það sem er til í skápunum. Reyndar hef ég notað þorsk í þessa uppskrift líka og það er ekkert síðra.

Parmesan ýsa
Fyrir 4

800 g ýsuflök, roðflett
50 g parmesan ostur, rifinn
60 g smjör, mjúkt
3 msk majones
2 msk safi úr sítrónu
1 tsk basil, þurrkað
½ tsk hvítlauksduft (má sleppa)
svartur pipar

  1. Blandið saman í skál osti, smjöri, majones og sítrónusafa. Kryddið með basil, hvítlauksdufti og svörtum pipar. Blandið vel saman og geymið.
  2. Raðið flökunum á olíusmurt ofnfast mót. Saltið og piprið.
    Grillið í ofni í 2-3 mínútur. Snúið síðan flökunum við og grillið á hinni hliðinni í svipaðan tíma. Takið þau næst úr ofninum og látið parmesanostablönduna yfir þá hlið sem á að snúa upp. Látið aftur inn í ofn í 2-3 mínútur. Varist að ofelda fiskinn sem á að sjálfsögðu alltaf við.

Halla Lúthersdóttir.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!