Framtíð byggðanna felst í fólkinu sem hér býr

Teitur Björn Einarsson, lögmaður í Skagafirði, sækist eftir öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi sem fer fram 16. og 19. júní. Hann er giftur Margréti Gísladóttur, framkvæmdastjóra Landssambands kúabænda, og búa þau í Skagafirði ásamt tveimur sonum sínum. Teitur er þó Vestfirðingur í húð og hár en hann ólst upp á miklu sjálfstæðisheimili á Flateyri. Faðir hans er Einar Oddur Kristjánsson heitinn, fyrrum alþingismaður Vestfirðinga og síðar Norðvesturkjördæmis.

„Í laganáminu þótti mér alltaf meira heillandi að velta fyrir mér hvers vegna lögin væru eins og þau væru, fremur en að finna nákvæmlega út úr því hvað væri rétt lögfræðileg niðurstaða í tilteknu máli. Þessar vangaveltur urðu fljótt að pólitískum hugleiðingum: Hver eiga lögin að vera og af hverju er samfélagið byggt upp með þessu hætti?“

Teitur var alinn upp á heimili sem lét samfélagið sig varða. Foreldrar hans voru virk í félagsstörfum og hann hefur alla tíð tileinkað sér það sjálfur. „Í litlu samfélagi eins og Flateyri skiptir nærumhverfið öllu máli, hvort sem um er að ræða leiklistarfélög, björgunarsveit eða önnur samfélagsverkefni. Ég held nefnilega að styrkleiki byggðanna felist einna helst í því hversu annt fólk er um samfélagið sitt og hversu reiðubúið það er að láta gott af sér leiða.

Atvinnuuppbygging á forsendum íbúanna

Teitur kveður mikil sóknartækifæri vera í kjördæminu, ekki síst á Vestfjörðum, og nauðsynlegt sé að kjördæmið hafi öfluga talsmenn á Alþingi. Á síðastliðnum árum hefur að hans mati ríkt ákveðið skilningsleysi á Alþingi um mikilvægi atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni. „Allt kjördæmið á það sameiginlegt að sá grunnur sem þarf til að sækja fram felst í auðlindum til lands og sjávar; vistvænu fiskeldi, hreinleika í matvælaframleiðslu og landbúnaði, tækifærum í hreinni orkuframleiðslu og hágæða ferðaþjónustu. Grundvöllurinn fyrir öflugri byggð í kjördæminu er skynsamleg nýting náttúruauðlinda. Við höfum séð t.d. á sunnanverðum Vestfjörðum hversu gríðarleg áhrif fiskeldið hefur haft á byggðaþróun í víðtækum skilningi. Fasteignaverð er byrjað að stíga upp, íbúum fjölgar og bjartsýni eykst. Það er ekkert launungarmál af hverju það er og því þarf að halda til haga. Rauði þráðurinn í framboði mínu er atvinnuuppbygging á forsendum íbúanna í kjördæminu. Að mínu mati eru margvísleg tækifæri sem felast í þeim miklu auðlindum sem er að finna í kjördæminu.“

Aðspurður hvernig Alþingi eigi að nálgast nýtingu auðlinda í kjördæminu, íbúunum til hagsbóta, segir Teitur að best sé að forðast öfgar og kerfið þurfi að vinna með fólki en ekki á móti. . „Aðalatriðið er að þetta gerist á forsendum byggðanna, á forsendum fólksins og ríkisvaldið haldi ekki sköpunarkrafti íbúa í kjördæminu niðri, t.d. með íþyngjandi sköttum og stjórnsýslu. Því miður virðast margir stjórnmálamenn fyrst hugsa um hvernig sé hægt að skattleggja og stýra, jafnvel áður en gullkálfurinn hefur dregið sinn fyrsta andardrátt.“

Teitur vísar í því sambandi til fiskeldis og áforma um það sem hann kallar miðstýrða friðun á stórum landsvæðum í kjördæminu. „Ég hef áhyggjur af að þau friðunaráform sem liggja fyrir muni koma í veg fyrir skynsamlega auðlindanýtingu og færa ákvarðanir þar um  enn fjær frá heimamönnum. Að mínu viti eru heimamenn best til þess fallnir að vega og meta með skynsamlegum hætti hvar mörkin á milli skynsamlegrar nýtingar og verndunar liggja, enda eru það þeir sem búa á svæðinu, ala upp börn hér og hafa hagsmuni af því að byggð verði blómleg um ókomna tíð. Slíkt hagsmunamat getur ekki bara farið fram á skrifstofu hjá opinberri stofnun í Reykjavík.“

Var þá Teitur spurður hvað hann telji að hlutverk ríkisins eigi að vera. Er ekki eðlilegt að hagsmunum sé miðstýrt að einhverju leyti? „Jú – aðkoma ríkisins er nauðsynleg á ákveðnum sviðum til að tryggja blómlega byggð í kjördæminu. Eins og ég hef rakið þá þarf ríkið að gæta þess að vera ekki of íþyngjandi, að það hamli ekki sköpunarkrafti þeirra öflugu einstaklinga sem búa í kjördæminu. En að sama skapi þarf ríkið að tryggja að nauðsynlegar  undirstöðu séu til staðar. Fólk, ungt fólk sem annað, flytur þangað sem bjartsýni ríkir og aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu spilar þar lykilhlutverk. Það þarf að sjá til þess að ekki verði aðstöðumunur milli landshluta og að samkeppishæfni kjördæmisins verði ekki skert til framtíðar. Ég gæti nefnt ótal dæmi þess efnis en eitt má nefna sérstaklega. Foreldrar langveikra barna á landsbyggðinni eru í þeirri stöðu að þurfa að sækja heilbrigðisþjónustu í þéttbýli um langan veg. Ferðalög vegna þess eru einungis niðurgreidd að litlu leyti svo eitthvað sé nefnt, aksturinn sem dæmi langt um minna per kílómeter heldur en opinberir starfsmenn fá fyrir að aka sömu vegi. Þetta stenst auðvitað enga skoðun en er þó eitt af mörgum dæmum um hvernig aðstöðumunur hinna dreifðu byggða er við höfuðborgarsvæðið.“

Tryggja þarf samgöngubætur og raforkuöryggi

Þá kveður Teitur nauðsynlegt að ríkið byggi upp öfluga innviði. „Nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að nýta tækifæri í atvinnuuppbyggingu er að tryggja aðgengi að raforku, fjarskiptatækni og að vegasamgöngur séu öflugar. Við höfum séð það á Vestfjörðum að aðgengi að raforku fyrir atvinnurekendur er verulega ótryggt. Þetta gerir Vestfirði að lakari valkosti en ella þegar kemur að uppbyggingu nokkurs konar nýsköpunar sem byggir á aðgengi að orku. Í því sambandi geld ég varhug við áformum um að stofna þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum ef skynsamlegir virkjanakostir eru þar með slegnir út af borðinu. Það gæti til að mynda ógnað þeim uppgangi sem er hafinn á svæðinu eftir áratugi af efnahagslegum þrengingum.“

Lokaorð? „Ég hvet alla áhugasama til þess að taka þátt í prófkjöri Sjálftstæðismanna sem fer fram 16. og 19. júní. Það er mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn tefli fram öflugum lista í komandi alþingiskosningum sem byggir á víðtæku umboði í kjölfar fjölmenns prófkjörs. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að sýna með afgerandi hætti að hann sé flokkur einstaklingsframtaksins, skynsamlegrar auðlindanýtingar og frelsi fólks til athafna, hvort sem um er að ræða sjómenn, einyrkja, bændur eða aðra. Flokkurinn þarf að hrista af sér þá ímynd, sem ég hef skilning á að sumir hafi, að hann sé orðinn að flokki kerfisins og miðstýringar. Hann er það ekki að mínu mati en kveða verður mun fastar við að draga fram grunngildin í sjálfstæðisstefnunni. Það mun ég gera nái ég kjöri.“