Undir Yggdrasil í Haukadal

Dýrfirski rithöfundurinn Vilborg Davíðsdóttir flytur erindi í máli og myndum um nýjustu bók sína, Undir Yggdrasil í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal í Dýrafirði laugardaginn 3. júlí kl. 16:00

Þessi tíunda bók hennar er grípandi skáldsaga úr sama sagnabrunni og hún sótti áhrifamikinn þríleik sinn um Auði djúpúðgu.

Hér segir frá Þorgerði Þorsteinsdóttur sem kom í Dalina frá Skotlandi með Auði ömmu sinni og ungum systkinum. Vilborg dregur upp þroskasögu konu sem frá barnsaldri þráir að nema fjölkynngi og finnur sér loks leið í gegnum áföllin sem á henni dynja inn í veröld völvunnar og yfirnáttúrulegra vætta.

Undir heimstré norrænna manna, askinum Yggdrasil, kemst Þorgerður hins vegar að raun um að ekki er endilega sá kostur bestur að fá að vita forlög sín fyrir.

Undir Yggdrasil var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2021. Sögulegar skáldsögur Vilborgar hafa notið mikilla vinsælda enda varpa þær nýju og óvæntu ljósi á líf kvenna sem lengi hafa staðið í skugga í karlaveldi Íslandssögunnar