Þórdís Kolbrún skipar starfshóp sem skoðar orkumál og tækifæri til nýrrar atvinnusköpunar á Vestfjörðum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða stöðu orkumála á Vestfjörðum og tengsl þeirra við nýsköpun og atvinnutækifæri á svæðinu. 

Starfshópurinn skal skoða orkumál á Vestfjörðum heildstætt, jafnt út frá stöðu mála í flutningskerfi raforku, dreifikerfi raforku, möguleikum til orkuvinnslu á svæðinu og áherslum um orkuskipti og afhendingaröryggi raforku á landsvísu. 

Markmið vinnunnar er að rýna samspil framangreindra þátta og finna leiðir til að efla stöðu orkumála í þessum landshluta með hliðsjón af vaxandi tækifærum til nýrrar atvinnusköpunar, jöfnun búsetuskilyrða og styðja við orkuskipti á svæðinu.

Starfshópinn skipa fulltrúar frá Vestfjarðastofu og Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Orkubúi Vestfjarða, Landsneti, Orkustofnun og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, auk formanns.

Meðal þess sem starfshópnum er falið að skoða eru nýsköpun í orkumálum á Vestfjörðum, orkuskipti og hvort leggja skuli áherslu á bættar tengingar frá meginflutningskerfi raforku inn á svæðið, eða aukna sjálfbærni og sjálfstæði í raforkumálum innan svæðisins, sem og samspil þessara þátta