Þjóðgarður: Snerpa leggst gegn drögum að friðlýsingu og vill frestun

Snerpa Ísafirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Snerpa á Ísafirði sendir inn ýtarlega umsögn um tillöguna að friðlýsingu fyrir þjóðgarð á Vestfjörðum. Niðurstaða umsagnarinnar er að Snerpa leggst því gegn tillögu að friðlýsingarskilmálum í heild og leggur til að friðlýsingu verði frestað þar til nauðsynleg og möguleg innviðauppbygging á svæðinu hefur verið skilgreind.

Gerð er almenn athugasemd um framkvæmd auglýsingar draga að friðlýsingu og fundið að því að ekkert samráð hefur verið átt við almenning þar sem innsendar athugasemdir eru ekki birtar fyrr en að loknu ,,samráðsferlinu“.

Bent er á að í þjóðgarði eru gerðar mun strangari kröfur um jarðrask vegna framkvæmda en utan hans. Það hefur áhrif á lagningu ljósleiðara eða rafstrengja. Mun ítarlegra mat þarf í þjóðgarði en ella og mun þrengri skilyrði eru til framkvæmdaleyfa.

Skv. byggingareglugerð þarf ekki sérstakt byggingarleyfi til lagningar innviða svo sem ljósleiðara- eða rafstrengja. Friðlýsing gerir að verkum að slíkar framkvæmdir þurfi jafnvel í umhverfismat að óbreyttu og gildi um það mun strangari skilyrði en ella. Í umsögn Snerpu segir að umhverfismat er mjög kostnaðarsamur liður í framkvæmdum og að engin stærðarviðmið eru í tillögunni að friðlýsingarskilmálum eins og í almennu lagaumhverfi og gera þarf umhverfismat óháð því hvort strengir eru heimtaug eða stofnleið en skv. lögum um umhverfismat þarf að öllum jafnaði ekki umhverfismat vegna plægðrar strengja styttri en 10 km. „Á svæðinu eru afar erfiðar aðstæður til strenglagninga og lítið um jarðveg á hálendinu. Svona höft gætu jafnvel komið í veg fyrir uppbyggingu innviða af kostnaðarlegum ástæðum einum saman, ástæðum sem ekki eru fyrir hendi núna.“

Þá segir í umsögn Snerpu að svæðið sé strjálbýlt og kostnaðarsamt sé að byggja upp innviði. Framlegð sé alla jafna neikvæð og kvaðir sem auka kostnað og torvelda framfarir minnki líkur á uppbyggingu. Þá sé svæðið lítt þróað og veruleg þörf fyrir framfarir í samgöngum, framleiðslu rafmagns og raflínulögnum.

„Við friðlýsingu væri að óbreyttu tekið fyrir 20-30 MW af raforkuframleiðslu með fallvatni, sem almennt er álitinn einn grænasti orkuöflunarkostur í nútíð og framtíð. Að hindra slíka nýtingu að óathuguðu máli er afar slæmur kostur fyrir kynslóðir framtíðar í öllu tilltiti og nægir þar að bena á að N-1 raforkuöryggi hefur ekki verið náð á svæðinu.“

DEILA