Þjóðgarður: Ísafjarðarbær frestaði málinu

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar frestaði því í gær að afgreiða mál er varðar þjóðgarð á Vestfjörðum. Fram kom að í næstu viku verður fundur með Umhverfisráðherra og Orkumálaráðherra. Bæjarfulltrúar voru sammála um að það vantaði lausnir við því hvernig öflun orku yrði háttað. En meirihluti þeirra raforku sem notuð er á Vestfjörðum er flutt inn í fjórðunginn og línurnar sem notast er við eru að verða hálfrar aldar gamlar og afhendingaröryggið það lakasta á landinu.

Samhljómur var í máli bæjarfulltrúa um það mat að friðlýsingarskilmálarnir væru ásættanlegir hvað varðar vegagerð innan væntanlegs þjóðgarðs og einnig varðandi endurnýjum á raflínum. Kristján Þór Kristjánsson, forseti bæjarstjórnar sagði að svör þyrfti að fást frá ríkinu um orkumálin. Sama kom fram í máli Birgis Gunnarssonar, bæjarstjóra.

Sigurður Jón Hreinsson, bæjarfulltrúi sagði að tveir möguleikar væru um virkjun á þessu svæði. Annars vegar Vatnsfjarðarvirkjun á vestanverðu svæðinu sem gæfi meira en 10 MW og hins vegar væri tveir kostir á austanverðu Glámuhálendinu. Annan væri hægt að ráðast í en þá yrði hinn útilokaður. Aflið væri svipað hvor þeirra sem yrði valinn eða um 13,5 MW. Sigurður sagði að Vatnsdalurinn væri svæði sem þegar teldist raskað svæði og væri því ekki ósnortið víðerni. Hinn kosturinn væri óraskað svæði.

Nanný Arna Guðmundsdóttir og Arna Lára Jónsdóttir töluðu gegn Vatnsfjarðarvirkjun og vildu báðar skoða aðra kosti. Nefndu þær sérstaklega tryggari flutning raforku inn á svæðið og Arna Lára benti á að skoða aðrar leiðir en fallorku og vildi skoða nýjar lausnir.

Jónas Þór Birgisson og Sigurður Jón Hreinsson töluðu báðir á hinn bóginn fyrir meiri orkuöflun á Vestfjörðum.