Þjóðgarður: ekkert minnst á virkjanir í friðlýsingarskilmálum

Starfshópur Umhverfisráðherra um stofnun þjóðgarðs á Vestfjörðum hefur skilað af sér lokaskýrslu og birt friðlýsingarskilmálana. Ekkert er minnst á möguleika á virkjunum í landi þjóðgarðsins eins og Orkubú Vestfjarða óskaði eftir að yrði gert.

Skýrslan var lögð fram á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar á mánudaginn ásamt bréfi Orkubús Vestfjarða sem greint hefur verið frá á Bæjarins besta.

Bæjarráðið frestaði því til næsta fundar að afgreiða málið.

Í friðlýsingarskilmálnum segir að endurbætur, viðhald og þjónusta á raflínum sé heimil án þess að leyfi Umhverfisstofnunar þurfi enda verði hvorki raskað vistkerfum né jarðminjum sem njóta sérstakrar verndar skv 61. greina laga um náttúruvernd. Þá segir að gert sé ráð fyrir lagningu og endurnýjun nýrra raflína til þes að styrkja raforkuflutninga og dreifingu á Vestfjörðum, sem og er gert ráð fyrir lagningu ljósleiðara um svæðið. Ekki þarf leyfi Umhverfisstofnunar fyrir þessum framkvæmdum, þó er undanskilið friðlandið í Vatnsfirði og náttúruvætti í Dynjanda, þar þarf leyfi Umhverfisstofnunar.

Kveðið er á um að Umhverfisstofnun skuli bera ábyrgð á því að gerð verði stjórnunar- og verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn. Meðal annar skal í þeirri áætlun fjalla um uppbyggingu á flutningskerfi raforku en ekkert er minnst á heimildir til rannsókna á virkjunarkostum og í framhaldinu að hrinda þeim í framkvæmd.

Orkubú Vestfjarða hefur bent ítrekað á að sé ekki kveðið á um slíka heimild í friðlýsingarskilmálum sé óheimilt samkvæmt lögum um Rammaáætlun að setja í rannsókn virkjunarkost með með 10 MW afli eða meira.

Í ákvæði til bráðabirgða segir að gert sé ráð fyrir vegaframkvæmdum um Dynjandisheiði og um Bíldudalsveg frá Bíldudalsflugvelli að Vestfjarðavegi á Dynjandisheiði í samræmi við skipulag.

DEILA