Þegar kasta skal áhrifum og reynslu

Á næstu dögum munu sjálfstæðismenn í Norðvesturkjördæmi ganga til prófkjörs. Úrslit þessu munu ráða uppstillingu í fyrstu fjögur sæti lista flokksins í Alþingiskosningunum í september.

Níu frambjóðendur bjóða fram krafta sína til setu á listanum, sjö þeirra búsettir  í kjördæminu en tveir frambjóðendur búa utan þess, annar í Kópavogi og hinn í Reykjavík.

Eins og fylgir prófkjörum sækjast  frambjóðendur eftir ákveðnum sætum á listanum eins og öllum er frjálst að gera í samræmi við eigin metnað og stöðumat. Að vonum getur verið erfitt að samræma persónulegan metnað hvers og eins frambjóðanda heildarhagsmunum framboðsins. Einnig er engin trygging  fyrir því að niðurstöður prófkjörs hverju sinni endurspegli þá breidd er margir telja að framboðslistar þurfi að hafa ekki síst í víðfemum og ólíkum landsbyggðarkjördæmum.

Ég vona að ég sé ekki mjög skrítinn þegar ég segi að þegar forysta Sjálfstæðisflokksins fer gegn sitjandi oddvita í kjördæmi þurfa að vera til þess ríkar ástæður. Á svo við nú þegar gengið er til prófkjörs í Norðvesturkjördæmi?

Núverandi oddviti flokksins nýtur trausts langt út fyrir raðir eigin flokksmanna. Er ekki ástæða til þess að halda í slíkt?

Varaformaður flokksins segist þurfa skýrara umboð frá flokksmönnum. Hvaða áhrif eru það sem sóst er eftir og ekki fást úr öðru sæti listans?

Nefnt er að ekki sé rétt að forysta í kjördæmum sé í höndum miðaldra karla. Það eru kaldar kveðjur til Bjarna Benediktssonar, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Njáls Trausta Friðbertssonar og þeirra þúsunda flokksmanna sem kosið hafa þá til forystu í kjördæmum sínum.

Varaformaður flokksins segist hafa metnað til þess að gegna formennsku í Sjálfstæðisflokknum og því sé nauðsynlegt að vera í forystusæti í sínu kjördæmi. Þó það embætti sé ekki laust og verður tæplega á næstunni má benda á að sá er nú gegnir því, Bjarni Benediktsson,  hlaut til þess kosningu þegar hann var í öðru sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi.

Sitjandi oddviti var einn einungis þriggja þingmanna sem töldust geta skipað sérstaka siðanefnd sem skipuð var í kjölfar Klaustursmálsins svokallaða.  Er það veikleikamerki?

Núverandi oddviti gaf kost á sér til áframhaldandi setu eftir fjölda áskorana. Meðal þeirra er vógu þyngst voru áskoranir frá flestum bæjarfulltrúum  og forystu flokksins á Akranesi, sterkasta baklandi þeirra beggja. Er það ekki styrkleikamerki?

Eftir breytingar á framboðslistum í landsbyggðarkjördæmunum í kjölfar þess að þingmenn flokksins hafa hætt þingmennsku er sitjandi oddviti orðinn lang reynslumestur þingmanna landsbyggðarinnar. Er ekki rétt að nýta þá reynslu?

Endurnýjun þarf að eiga sér stað er nefnt. Þó núverandi oddviti hafi miklu áorkað hefur hann samt sem áður einungis setið í átta ár á þingi. Ekki heyrðust þær raddir frá forystu flokksins þegar  Bjarni Benediktsson,  Guðlaugur Þór Þórðarson og Birgir Ármannson sóttust eftir og fengu áframhaldandi stuðning á dögunum Hafa þeir þó allir setið á þingi í 18 ár hver. Skiptir máli hver á í hlut þegar rætt er um þörf á endurnýjun?

Þegar oddvitasætið losnaði í Suðurkjördæmi var kosinn nýr og glæsilegur oddviti. Fyrir valinu varð afar reynslumikil kona úr atvinnulífinu. Ekki setti fólk þar fyrir sig að hún er miðaldra. Er fólk ekki miðaldra um svipað leyti óháð kynjum?

Núverandi oddviti deilir kjörum með íbúum kjördæmisins. Er það ekki styrkleikamerki?

Þá er sú skýring fleyg að fái varaformaður flokksins ekki góða útkomu úr prófkjörinu veiki það flokkinn á landsvísu. Það er í raun viðurkenning á því að varaformaður flokksins hafi ofmetið stöðu sína þegar ákveðið var að fara gegn sitjandi oddvita. Það má orða þetta öðruvísi. Nú gerir varaformaður flokksins mistök og skal þá oddviti flokksins í kjördæminu víkja sæti?  Er nú ekki heldur langt seilst með svona eftiráskýringum?

Svo er það sýnileikinn. Sitjandi oddviti er sagður lítt sýnilegur og gumi ekki nægilega af verkum sínum. Alltof fáir viti af verkum hans. Þetta er að sumu leyti rétt. Sitjandi oddviti er með starfssömustu þingmönnum og sinnir skyldum sínum á vinnustað af  mikilli samviskusemi. Hefur frá upphafi þingmennsku setið í fjárlaganefnd sem ein og sér krefst nánast allrar athygli þeirra er í henni sitja hverju sinni. Ekki síst á tímum eins og við lifum nú. Að auki hefur oddvitinn setið í atvinnuveganefnd. Vissulega er sitjandi oddviti lítt gefinn fyrir skrautsýningar og endalaust glamur um eigið ágæti. Á meðan verkin tala er ég sem almennur flokksmaður sáttur.

Þar komum við að kjarna málsins. Þegar flokksmenn þurfa að velja í oddvitasætið ber þeim skylda til þess að líta yfir farinn veg. Meta verk og reynslu frambjóðenda. Áhrif þeirra og áhuga á málefnum kjördæmisins alls. Geri flokksmenn það kvíði ég ekki niðurstöðunni. Það er ekki á hvers manns færi að standast atlögu forystu flokks. Þar verða almennir flokksmenn að koma til.

Af því bara, eru ekki nægileg rök til þess að kasta frá okkur reynslu, áhrifum og vinnusemi Haraldar Benediktssonar.  Tryggjum honum oddvitasætið áfram.

Sigþór Sigurðsson

Höfundur er viðskiptafræðingur og meistaranemi við Háskóla Íslands.

DEILA