Styðjum Teit í annað sætið!

Ég hef þekkt Teit Björn Einarsson allt frá því að hann fæddist árið 1980, en ég naut þeirrar gæfu að búa við hliðina á foreldrum hans á Flateyri í 10 ár, þeim heiðurshjónum Einari Oddi og Sigrúnu Gerðu. Milli okkar var djúpstæð vinátta og það gerðist af sjálfu sér að  Teitur varð mikill heimagangur hjá okkur hjónum. Hann var mikill fjörkálfur, sjálfstæður og dugandi drengur frá fyrstu tíð, sem aldrei gafst upp þegar hann hafði einsett sér eitthvað.

Kær vinátta hefur verið með okkur Teiti Birni og fjölskyldu alla tíð síðan. Allt sem Teitur tekur sér fyrir hann hendur, það gerir hann vel. Til þess hefur hann til að bera dugnað, verklagni og athygli. En hann átti erfitt með að tapa í skák, sem kom stundum fyrir, því faðir hans gaf engan afslátt í skákkennslunni. Þá var Einar Oddur vanur að segja við hann: „þú verður að læra að tapa það er jafn mikilvægt að kunna að tapa og vinna“. Og það hefur Teitur tileinkað sér. Hann kann að tapa og hann kann að vinna, en það þarf kjark, þor og þolgæði í bæði.

Það má segja um Teit að snemma beygist krókurinn. Hann fylgdi föður sínum hvert fótmál, fetaði bókstaflega í fótspor pabba síns á ferðum hans, og ég vissi strax að Teitur myndi einnig feta í hin pólitísku fótspor hans og velja stjórnmál sem starfsvettfang. Nú er það að ganga á eftir og það held ég sé gæfuspor, fyrir hann og okkur öll.

Teitur Björn þekkir sjávarútveginn vel. Hann ólst upp í sjávarplássi og á heimilinu bar gæftir, veiðar og vinnslu örugglega oft á góma. Þar fór ekki fram hjá honum hvernig verðmætasköpunin hefur áhrif á hverju heimili og fyrir landsmenn alla. Hann gaf sig líka að sjávarútvegnum um leið og hann gat vettlingi valdið, 14 ára gamall. Hann fór á sjóinn, vann í frystihúsinu á Flateyri og var framkvæmdastjóri Eyrarodda á tímabili.

Að þeirri reynslu býr Teitur, líkt og endurspeglast hefur í störfum hans á Alþingi og í opinberri umræðu um þetta fjöregg þjóðarinnar, þar sem hann hefur ekki látið sitt eftir liggja. Við höfum margsinnis rætt um sjávarútvegsmál okkar á milli. Teitur hefur skarpa sýn á þau í stóru samhengi og smáu. Hann veit vel hvað sjávarútvegurinn færir þjóðarbúinu, en ekki síður hvað hann er landsbyggðinni sérstaklega mikilvægur, og hvers vegna það er nauðsynlegt að hann fái að dafna á forsendum byggðanna, öllum til heilla.

Ég styð Teit Björn Einarsson í 2. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, sem fram fer dagana 16. og 19. júní. Og ég hvet ykkur eindregið að veita honum stuðning í 2. sætið. Við þurfum þannig fólk á þing.

Páll Halldórsson.

Höfundur er skipstjóri.

DEILA