Sif Huld: eineltið stóð í 7-8 ár – Bærinn greip ekki til aðgerða

Sif Huld Albertsdóttir aðstoðarframkvæmdastjóri Sjótækni.

Sif Huld Albertsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ fékk lausn frá störfum á fundi bæjarstjórnar í gær. Erindi hennar var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum 9:0. Áður en tillagan var borin upp til atkvæða kvaddi hún sér hljóðs og skýrði hvers vegna hún greip til þessa ráðs.

Fram kom í máli hennar að eineltið hefði staðið yfir í 7 – 8 ár og að Ísafjarðarbær hefði ekki gripið til aðgerða þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um vandann. Utanaðkomandi aðili var að lokum feginn til þess að greina málið og eftir að skýr niðurstaða hans lá fyrir hefði lítið þokast. Sif kvaðst hafa viljað ná sáttum en það væri of langur tíminn liðinn til þess að hún gæti unað við það. Sérstaklega fann hún að því að bæjarstjóri hefði lýst yfir trausti á gerandanum. Þau ummæli hefðu vakið athygli og t.d. kennarar hjá Ísafjarðarbæ spyrðu sig hvernig þeir ættu að bregðast við einelti þegar svo háttaði til að yfirmaður lýsti yfir trausti á gerandanum.

Sif Huld Albertsdóttir sagðist hafa komist að þeirri niðurstöðu að hún yrði að standa með sjálfri sér og láta af störfum sem bæjarfulltrúi og að hún væri nauðbeygð til þess að leggja fram bótakröfur. Hún gæti ekki bæði verið bæjarfulltrúi og staðið í deilum við sveitarfélagið.

Ísafjarðarbær samþykkti eineltisstefnu árið 2016 sem unnin er í samræmi við reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnutöðum. Hún er aðgengileg á vef bæjarins.

DEILA