Rösum ekki um ráð fram

Sú umræða sem fram hefur farið undanfarnar vikur um mögulega stofnun þjóðgarðs á Vestfjörðum er um margt athyglisverð og hefur leitt ýmislegt í ljós sem nauðsynlegt er að ræða opinskátt áður en endanleg ákvörðun verður tekin í málinu.

Mér finnst umræðan ekki hafa verið markviss og opin.  Má þar nefna að athugasemdir sem nefndinni bárust í desember 2020 virðast ekki hafa komið fyrir sjónir nefndarinnar fyrr en tæpum fimm mánuðum seinna og ekki tekið tillit til þeirra fyrr en eftir áminningargrein Elíasar Jónatanssonar orkubússtjóra. Fyrir vikið hefur mjög lítil opinber umræða farið fram um þetta risavaxna mál sem mögulega mun binda hendur komandi kynslóða. Viðbrögð við athugasemdum Orkubús Vestfjarða hafa í raun ekki tekið af neinn vafa um hverjar leikreglurnar verða.

Þegar taka skal umræðu um stór hagsmunamál verður að horfa blákalt á þá kosti sem núverandi og komandi kynslóðum standa til boða. Fyrst af öllu þarf að taka ákvarðanir á grundvelli staðreynda ekki síst í ljósi þess hversu fljótt aðstæður breytast.

Raforkuþörf þá og nú

Á árinu 1974 var raforkunotkun  á Vestfjörðum 30 GWst. Árið 2020 var rafmagnsnotkunin 256 GWst eða 8,5 sinnum meiri en árið 1974. Í tölum fyrir 2020 voru 130 GWst vegna húshitunar sem kom í stað olíubrennslu (fyrstu orkuskiptin á Vestfjörðum). Þessi mikla aukning er afar athyglisverð ekki síst þegar horft er til þess að á þessum tíma hefur vinnsla sjávarafurða dregist telsvert saman á Vestfjörðum. Af þessum 256 GWst eru einungis um 120  GWst framleiddar á Vestfjörðum, þar af 97 af Orkubúinu en 23 GWst koma frá bændavirkjunum.

Þegar er hafin á Íslandi markviss vinna vegna orkuskipta svo mæta megi kröfum sem við höfum undirgengist í loftslagsmálum. Það kallar á mun meiri rafmagnsframleiðslu á Íslandi og þar með raforkuflutninga. Gildi þar einu hvort átt er við bíla, flugvélar eða skip. Þó ekki séu að fullu ljóst hver verður framtíðar orkugjafi skipa, svo dæmi sé tekið.

Undan Vestfjörðum eru gjöfulustu fiskimið landsins sem verða nýtt áfram. Sá skipafloti mun þurfa orku frá Vestfjörðum. Gildir þá einu hvaðan skipin verða gerð út. Bílafloti Vestfirðinga og þeirra er þá sækja heim verður knúinn rafmagni. Einungis þessir tveir þættir kalla á mikla aukningu á raforkunotkun og -flutningi á Vestfjörðum. Í störfum mínum við Orkusjóð, sem hefur haft verkefni um að styðja við fjölgun hleðslustöðva fyrir bíla, sést að þegar er þröngur kostur á Vestfjörðum. Varla er vilji til þess að Vestfirðir sitji hjá í þeim efnum? Hver skyldi orkuþörfin verða árið 2065? Áttföld núerandi? Tíföld núverandi?

Hvernig mætum við framtíðinni?

Þessari fyrirsjáanlegu orkuþörf verður aðeins mætt með aukinni framleiðslu og/eða aukinni flutningsgetu til landshlutans og ekki síst aukinni og öruggari flutningsgetu um landshlutann.  Báðir þessir kostir tengjast óhjákvæmilega því svæði sem nú er rætt að tilheyra muni hinum nýja þjóðgarði. Því verður ekki undan því vikist að skilmálar þeir sem settir verða við stofnun hans séu algjörlega skýrir. Því getum við ekki horft framhjá og  vísað til komandi kynslóða.

Ég hef áður sagt að Vestfirðir eiga að vera sjálfbærir í orkumálum og helst af öllu vegna öryggissjónarmiða getað flutt orku til annarra landshluta. Raforkuþörf Vestfirðinga í framtíðinni verður ekki leyst með dýrustu kostum sem bjóðast sem er flutningur orku frá öðrum landshlutum auk þess sem ekki er  endilega á vísan  að róa í þeim efnum þegar fram líða stundir.

Flutningsgeta núverandi kerfa á Vestfjörðum er ekki ásættanleg fyrir framtíðaráformin. Í því samhengi má nefna að í Flókalundi, sem væntanlega verður einn af miðpunktum hugsanlegs þjóðgarðs er einungis hægt að sinna þörfum þeirra örfáu rafmagnsbíla er þangað koma í dag, en nánast ekkert borð er fyrir báru að taka við fyrirsjáanlegri aukningu. Er það boðleg staða?

Hvað er ósnortið?

Í umræðunni um margnefndan þjóðgarð er þess oft getið að Vatnsfjörður hafi verið friðland síðan 1975 og því sé umræða um hugsanlega virkjunarkosti eða bygging nýrra flutningslína í eða við þann hluta væntanlegs þjóðgarðs fallin um sjálfa sig. Það er rangt. Leiða má líkur að því að á þeim tíma hafi aldrei verið stefnan að koma í veg fyrir aðlögun friðlandsins að þörfum íbúa Vestfjarða hverju sinni. Má í því sambandi nefna að hluti Vesturlínu var lagður um friðlandið eftir stofnun þess og getur því svæðið í nágrenni línunnar vart talist ósnortið.

Ég ítreka að hugmyndir um stofnun þjóðgarðs á Vestfjörðum eru mjög áhugaverður kostur.  Þjóðgarði munu fylgja eftirsóknarverð tækifæri. Áður en endanleg ákvörðun um stofnun hans og skilmála verður tekin verður að vega og meta alla þekkta kosti Vestfirðinga í orkumálum. Skilmálar sem gefa kost á mögulegum virkjunum eða raflínum er ekki endanleg ákvörðun um að ráðist verði í slíkar framkvæmdir. Verði í framtíðinni ákveðið að fara í slíkar framkvæmdir þurfa þær að komast í gegnum nálarauga þar til gerðra stjórnsýslustofnana. Enginn getur  haldið því fram að það ferli fari framúr sér í ákvörðunum.

Frelsi núverandi kynslóðar til ákvarðana má ekki verða helsi komandi kynslóða.

Haraldur Benediktsson

DEILA