Reynslan skiptir miklu máli

Haraldur Benediktsson alþingismaður og 1.þingmaður Norðvesturkjördæmis hefur nú setið átta ár á þingi og sækist eftir áframhaldandi oddvitasæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri flokksins sem fram fer síðar í vikunni. Frá upphafi þingmennskunnar hefur hann setið í fjárlaganefnd og í vetur m.a. í atvinnuveganefnd. Hann hefur því staðið vaktina sem þingmaður það sem af er prófkjörsbaráttunnar en þingi var frestað aðfararnótt sunnudags.  Á sunnudagkvöldið var hann kominn til Patreksfjarðar á sameiginlegan framboðsfund  frambjóðenda í prófkjörinu. Fundurinn á Patreksfirði var sá síðasti í fundaröð frambjóðenda.

Aðspurður segir hann fundina hafa í heild gengið vel. „Það var ekki á vísan að róa með fundarsókn í kjölfar faraldursins en í heild megum við vel við una. Kjördæmið er víðfemt og hagsmunir að hluta til ólíkir en þegar öllu er á botninn hvolft er undirstaða  Norðvesturkjördæmis framleiðsla tengd náttúruauðlindum. Gildir þar einu hvort um er að ræða fiskeldi, fiskveiðar og vinnsla,  landbúnaður og vinnsla afurða honum tengd og stóriðjan á Grundartanga. Allt eru þetta atvinnugreinar sem byggja á náttúrunni og umgengni við hana. Þar fara hagsmunir íbúa kjördæmisins saman. Sem bónda og síðar þingmanni hefur mér leiðst óskaplega hvernig  oft á tíðum  er talað af miklu skilningsleysi og jafnvel  óvirðingu um þá sem  nýta náttúruna á jafn skynsamlegan hátt og  víðast er gert á Íslandi. Sem betur fer hefur orðið þar talsverð hugarfarsbreyting á allra síðustu árum. Það var löngu tímabært. Það gerðist ekki af sjálfu sér. Þar þurftu atvinnugreinarnar sjálfar einnig að líta í eigin barm og að þeirri vinnu kom ég meðal annars sem forystumaður bænda á árum áður“ segir Haraldur.

Aðspurður um helstu mál er brenna á Vestfirðingum segir Haraldur að þar séu  efst á baugi sem fyrr atvinnumál, samgöngumál, heilbrigðismál og ekki síst umræða um stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum. „Þrátt fyrir allt hafa mörg stór mál þokast áfram á Vestfjörðum á kjörtímabilinu. Það gekk hins vegar ekki baráttulaust. Þar þurfti einnig að verða hugarfarsbreyting  bæði í héraði og í hugum annarra landsmanna. Það var svo komið að þarfir Vestfirðinga mættu miklu og langvarandi skilningsleysi og ég verð að segja að það skilningsleysi náði inn í stjórnsýsluna í landinu.  En með samstilltu átaki tókst að breyta hugarfari. Ég er ekki í vafa að efling starfsemi fjórðungssambandsins hefur skilað árangri.  Sem betur fer tel ég að við séum  komin á beinu brautina í samgönguframkvæmdum. Dýrafjarðargöng hafa verið tekin í notkun, miklar framkvæmdir standa yfir á Dynjandisheiði og þrátt fyrir allt eru hafnar framkvæmdir í Þorskafirði sem á endanum verður lokið með veg um Teigsskóg. Ég er afar stoltur af þeim árangri sem þar hefur orðið. Það gekk ekki átakalaust í fjárlaganefnd að tryggja fjármuni til þeirra verka enda margar góðar framkvæmdir sem bíða. Það tókst á endanum og það er fyrir öllu. Ég er einna stoltastur af þeim árangri á mínum þingmannsferli. Kannski mest af því að hafa komið Dýrafjarðargöngum í fjárlög 2017, sem formaður fjárlaganefndar, þegar ekki var starfandi meirihluti á alþingi – sem tryggði að mínu viti áframhaldandi samgöngubætur.  Vestfirðingar mega hins vegar aldrei sofna á verðinum og muna að vegakerfið er víða þar um slóðir óásættanlegt, ekki síst í samanburði við aðra landshluta. Í því sambandi má einnig nefna að nú hefur vaxið skilningur á áframhaldandi siglingum Baldurs um Breiðafjörð og hafin er vinna við framtíð þeirra.“

Haraldur segir öllum ljóst sem um Vestfirði fara hversu aukið fiskeldi hefur aukið  mönnum bjartsýni enda hafi verðmætasköpun aukist verulega og afleiddum störfum fjölgað verulega. „Við horfum til Vestfjarða og Austfjarða um aukna verðmætasköpun sem byggir á eldi. Verðmæti þess eykst hröðum skrefum og mikilvægið fyrir þjóðarbúið eykst hröðum skrefum. Það er afar mikilvægt að sú sátt sem gerð var um uppbyggingu fiskeldis haldi og í því sambandi verður stjórnsýslan  að ná tökum á þeim þáttum sem að henni snúa.  Það er frumskilyrði fyrir frekari framþróun. Byggðin og fólkið á Vestfjörðum verður líka að geta fylgt þeirri uppbyggingu eftir. Það verður athyglisvert, ekki síst fyrir frekari uppbyggingu fiskeldis,  að fylgjast með því hvar og hvernig fiskeldisfyrirtækin byggja upp sína starfsemi til framtíðar.  Sú uppbygging á að vera áfram til eflingar á Vestfjörðum.“

Raforkumálin hafa verið mikið í umræðunni á Vestfjörðum á yfirstandandi kjörtímabili. „Staða raforkumála eru einn veikasti þáttur mannlífs á Vestfjörðum nú um stundir. Það eru vonbrigði kjörtímabilsins hversu hægt hefur gengið í þeim málum. Sú staða er vart  boðleg og ég hef lagt áherslu á það, Vestfirðinga og ekki síst þjóðarhagsins vegna, að Vestfirðir verði sjálfbærir í raforkuframleiðslu og helst að þeir flytji raforku frá sér en til sín. Því er það mikið ánægjuefni að stofnun fyrirhugaðs þjóðgarðs hefur verið slegið á frest til þess að fara yfir þær hugmyndir sem heimamenn hafa í þeim málum. Ég vona að næsta ríkisstjórn svari betur kalli um bætt raforkuöryggi en gert hefur verið á liðnum árum.“

Eins og áður sagði er Norðvesturkjördæmi víðfemt og Haraldur er sem kunnugt er búsettur á Vestri-Reyn í Hvalfjarðarsveit. Hvernig gengur að sinna kjördæminu og vera sýnilegur eins og sagt er? „Ég fæ oft að heyra það á Vestfjörðum, og víðar að ég sé ósýnilegur og líka að enginn viti hvort eða yfirhöfuð hvað ég hef gert til bóta þar um slóðir. Sú umræða á rétt á sér upp að ákveðnu marki.  Það væri vissulega einfaldara að vera áberandi ef kjördæmið væri bara gamla Vestfjarðakjördæmi eða Vesturlandskjördæmi.  Að ég tali ekki um að þingið situr orðið lengur en var. Ég hefði gjarnan viljað vera oftar fyrir vestan en ég hef hins vegar verið þar mun oftar en fólk heldur. Allan minn þingferil hef ég reynt að halda sem bestum tengslum við heimamenn ekki síst forystufólkið í sveitarstjórnunum og hjá samtökum sveitarfélaga.  Fyrsti þingmaður kjördæmisins er í stöðugu sambandi, sem dæmi, við landshlutasamtökin í kjördæminu.   Ég átti til dæmis mjög náið og gott samstarf við Hafdísi Gunnarsdóttur þegar hún var formaður Fjórðungssambandsins ekki síst þegar ég vann að tryggingu fjármuna í Dýrafjarðargöng, Dynjandisheiði og ekki síst þegar unnið var að lausn Teigsskógsmálsins. Ég nefni mikið og gott samband við marga oddvita og sveitastjóra í gegnum Ísland ljóstengt verkefnið.  Oddvita Árneshrepps, Strandabyggðar og Kaldrananeshrepp.  Sérstaklega góðum áfanga að styrkja raforkuöryggi í Árneshreppi, með sérstöku fjármagni sem er samþætt verkefni með lagningu ljósleiðara.  Bætt afhendingaröryggi rafmagns í Kaldrananeshreppi.  Ég átti einnig í miklum samskiptum við sveitarstjórn Strandabyggðar um lagningu á ljósleiðara og rafstrengjavæðinu, þegar unnið var að hringtengi verkefni fjarskipta um Djúpið.  Það var langstærsta einstaka fjarskiptaverkefnið með aðkomu hins opinbera eftir hrun.  Mörg þeirra mála sem unnið er að eru nú þess eðlis að vart er hægt að ræða þau á meðan á lausn þeirra stendur. Á endanum eru líka flest stærri mál þess eðlis að þau eru verk margra.  Mér finnst hreinlega asnalegt að stæra mig af slíku,  Það er ekki leiðtogi sem leiðir mál til lykta og kemur svo fram og segist hafa gert allt sjálfur.  En leiðtogi er sá sem nær fram merkum áföngum.  Ég get tekið dæmi um áratugaverkefni, malbikun á bílastæðinu við Ísafjarðarflugvöll, sem í breytingatillögu fjárlaganefndar varð hluti af fjárfestingaráætlun.  Það var verk meirihluta fjárlaganefndar og ég þurfti eðlilega samstöðu hennar.  Mér finnst þannig ekki rétt að ganga fram og segja, þetta gerði ég – en það er ágætt dæmi um aðgerð sem ég var vakandi fyrir. Af einhverjum ástæðum hafa verk mín ekki alltaf komist á allra vitorð. Mér finnst betra að láta verkin tala en ég sé sjálfur sífellt að því. Það er öllum fyrir bestu. Eflaust skaðar það mig á einhvern hátt sem þingmann en það verður þá að hafa það. “

Að Haraldi er nú sótt því sem kunnugt er hefur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra gefið kost á sér í fyrsta sæti listans. Haraldur segir auðvitað snúið þegar forysta flokksins gerir kröfu til oddvitasætisins. „Varaformaður flokksins, kaus að skora mig á hólm.  En auðvitað á enginn neitt í pólitík.  Ég vona að flokkurinn komi sterkur til baráttunnar í haust.  Það skiptir ekkert meira máli en kröftug viðspyrna efnahagslífsins í kjölfar skyndilegrar kreppu af völdum veirunnar. Við þurfum á fullum styrk Sjálfstæðisflokksins að halda ekki síst í okkar ágæta kjördæmi. Það  er aðalatriðið.  Að flokksmenn  meti   störf mín á þeim átta árum sem ég hef setið á þingi. Ég er  enn á ágætum aldri og finnst ég loks hafa öðlast þá reynslu sem nauðsynleg er til þess að láta verulega til mín taka.“

Aðspurður hvort hann taki annað sæti listans fari svo að varaformaðurinn hafi betur segir hann svo ekki vera. „Ég hef setið sem oddviti listans og gegnt stöðu fyrsta þingmanns kjördæmisins. Ég hef náð að stilla saman strengi allra þingmanna kjördæmisins til góðra verka. Ég er reiðubúinn að gera það áfram. Feli flokksmenn öðrum það hlutverk er það skýr niðurstaða. Það getur ekki verið gott fyrir nýjan oddvita að hafa þann gamla í aftursætinu“ segir Haraldur að lokum.

DEILA