Reykhólar: Orkubúið hefur aðeins heimild fyrir 1/4 af heita vatninu

Orkubú Vestfjarða hefur heimild til þess að að nýta ¼ eða 8,75 l/sek af þeim 35 l/sek sem heimilt er að nýta af heitu vatni á Reykhólum segir Elías Jónatansson, Orkubússtjóri. Þörungaverksmiðjan hefur heimild til að nýta 26,25 l/sek. 

Af þeim 8,75 l/sek sem OV hefur heimild til að nýta hefur verið gerður samningur við Norðursalt um nýtingu á 5 l/sek, en afgangurinn, þ.e. 3,75 l/sek eru hugsaðir fyrir byggðarlagið, þ.e. almenna upphitun, sundlaug o.fl. 

Sveitarstjórn Reykhólahrepps ályktaði á síðasta fundi sínum um stöðu hitaveitumála á Reykhólum og lýsti sveitarstjórn þungum áhyggjum sínum af hitaveitu- og orkumálum á Reykhólum og skoraði á stjórn Orkubús Vestfjarða að gera nýtingaráætlun og sinna þörfum almennings og fyrirtækja á svæðinu. „Það er algjörlega ótækt að fyrirtæki á Reykhólum sem vilja hefja atvinnustarfsemi fái ekki til þess heitt vatn á meðan það rennur ónotað út í sjó og skurði“ segir í ályktuninni.

„Þar sem notkunin er árstíðabundin þá háttar þannig til að vatn sem er umfram notkun fer til sjávar án þess að fara inn á veitukerfið.  Afgangsvatnið væri hugsanlegt að selja yfir sumartímann, en á veturna þarf að vera fullt afhendingaröryggi fyrir byggðina sem þá hamlar því að hægt sé að selja það til stærri notenda.“ segir í svari Elíasar við fyrirspurn Bæjarins besta.

„Fram hafa komið hugmyndir um frekari nýtingu jarðhitans að Reykhólum, sem sveitarstjórn Reykhólahrepps þekkir vel.  Eftir fund á sínum tíma með hagsmunaaðilum á á staðnum ákv. Orkubúið að ráðast í afkastamælingu á auðlindinni sem er forsenda þess að gefið verði út aukið nýtingarleyfi.  Niðurstaða þeirra mælinga gaf til kynna að auðlindin sé talsvert frá því að vera fullnýtt og sótti Orkubúið um nýtingarleyfi á aukningunni til Orkustofnunar.  Nýtt nýtingarleyfi hefur hins vegar ekki verið gefið út.  Af þeim sökum getur Orkubúið ekki gert samninga við nýja stórnotendur eða aukið við afhendingu til núverandi stórnotenda.“

Fram kemur einnig í svörum Orkubússtjóra að Orkubúinu er kunnugt um að Þörungaverksmiðjan sóttist eftir auknu nýtingarleyfi eftir að Orkubúið lagði inn sína umsókn og hún var í umsagnarferli.  Umsókn fyrirtækisins byggði þó á rannsóknum sem Orkubúið greiddi.

„Rétt er að geta þess að Orkubúið gat þess í sinni umsókn að það teldi eðlilegast að Orkubúið fengi í sínar hendur alla viðbótina.  Það hefði þá jafnframt þær skyldur að sinna öllum umsóknum frá aðilum sem tengjast vildu kerfinu og vinna þær umsóknir með jafnræði aðila að leiðarljósi. Þá er rétt að taka fram að Orkubúið greiðir ríkinu auðlindagjald fyrir afnotin af þeim 8,75 l/sek sem það hefur heimild til að nota í dag.“

DEILA