Reykhólahreppur: vill að Orkubúið nýti heita vatnið eða skili einkaréttinum

Reykhólar.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps ræddi á síðasta fundi sínum að stöðu hitaveitumála á Reykhólum.

Í ályktun sem gerð var lýsir sveitarstjórn þungum áhyggjum sínum af hitaveitu- og orkumálum á Reykhólum og
skoraði á stjórn Orkubús Vestfjarða að gera nýtingaráætlun og sinna þörfum almennings
og fyrirtækja á svæðinu.

„Það er algjörlega ótækt að fyrirtæki á Reykhólum sem vilja hefja atvinnustarfsemi fái ekki til þess heitt vatn á meðan það rennur ónotað út í sjó og skurði“ segir í ályktuninni.


Sveitarstjórn krefst þess að Orkubúið geri raunhæfar áætlanir um nýtingu auðlindarinnar sem henti atvinnulífi, uppbyggingu og samfélaginu á svæðinu ellegar skili einkarétti af sölu orkunnar til sveitarfélagsins. Þá skorar sveitarstjórn Reykhólahrepps á þingmenn og ráðherra iðnaðar að leggja sveitarfélaginu lið í þessu máli svo hægt verði að nýta auðlindir á Reykhólum til uppbyggingar atvinnutækifæra á svæðinu.

DEILA