Prestsbakkakirkja

Prestbakkakirkja Ljósmynd Friðjón Árnason Melgerði, Lundareykjardal, Borgarfirði

Prestbakkakirkja er í Prestbakkaprestakalli í Húnavatnsprófastsdæmi, en Strandaprófastsdæmi var sameinað því 1970 og fluttist þá um leið úr Skálholtsbiskupsdæmi í Hólabiskupsdæmi. Prestbakki við Hrútafjörð hefur verið kirkjustaður síðan um 1100, en varð prestssetur 1711.

Kirkjuhúsið, sem var Maríukirkja í fyrra sið, stóð á sama helgaða grunni innan kirkjugarðsins til 1874. Síðasta guðshúsið á hinu forna stæði var sjö stafgólfa torfkirkja, byggð 1805.  Þegar torfkirkjan var tekin ofan 1874, var byggð trékirkja utan og norðan garðsins. Hún var rifin 1957, er steinsteypt kirkjuhús var fullgert norðan trékirkjunnar.

Steinkirkjan, sem nú stendur á Prestbakka, var byggð á árunum 1954-1957 eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins. Síra Ásmundur Guðmundsson biskup vígði kirkjuna 26. maí 1957. Kór hennar er sérbyggður eins og forkirkjan, en yfir henni tvenn steypt loft undir turninum.

Af vefsíðunni kirkjukort.net

DEILA