Merkir Íslendingar – Hjörtur Hjálmarsson

Hjörtur Hjálmarsson fæddist á Þorljótsstöðum í Skagafirði þann 28. júní 1905.



Árið 1931 fluttist Hjörtur til Flateyrar og gerðist kennari við barnaskólann, fyrst sem almennur kennari. Árið 1959 tók hann við skólastjórn og gegndi því starfi til ársins 1970.

Hjörtur Hjálmarsson kvæntist Aðalheiði Rögnu Sveinsdóttur, dóttur Sveins Gunnlaugssonar þáverandi skólastjóra á Flateyri og Sigríðar Benediktsdóttur. Hjörtur og Ragna eignuðust tvo syni, þá Emil Ragnar kennara og skólastjóra og Grétar Snæ starfsmannastjóra.

Ragna var lengi kirkjuorganisti og söngkennari á Flateyri.

Hjörtur var oddviti Flateyrarhrepps á árunum 1938 til 1946, hreppstjóri var hann frá 1948 til 1972 og sat í sýslunefnd árin 1942 til 1972. Hann sat í stjórn og var stjórnarformaður Kaupfélags Önfirðinga frá 1944 til 1973. Hjörtur var síðasti heiðursborgari Flateyrarhrepps.



Auk þess var Hjörtur, samhliða kennslu og skólastjórn, forystumaður í vel flestum félögum og samtökum á Flateyri um áratuga skeið og hafði þannig mjög mótandi áhrif á allt mannlíf á staðnum um langt árabil.

Hjörtur Hjálmarsson lést á Dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum þann 17. nóvember 1993 á 89. aldursári.


 

 

Skráð af Menningar-Bakki.

DEILA