Lónafellsganga – Í fótspor Hrafna-Flóka

Landverðir Umhverfisstofnunar munu bjóða upp á gönguferðir í sumar vítt og breitt um landið. Í boði verða gönguferðir og viðburðir þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi, bæði börn og fullorðnir.

Ein slík verður á morgun þann 19. júní klukkan 15:00 en þá ætla landverðir í friðlandinu Vatnsfirði að bjóða upp á fræðslugöngu á Lónfell.

Vegna vegaframkvæmda á Dynjandisheiði mun landvörður hitta áhugasamt göngufólk á bílastæðinu við Hótel Flókalund og þaðan verður sameinast í bíla upp á heiðina þar sem hin eiginlega ganga hefst.

Vegalengd: 5-6 km – Hækkun: 300 m – Tími: 4 klst

Búnaður: Góðir skór, fatnaður eftir veðri og nesti. Gaman getur verið að hafa sjónauka.

Gangan er nokkuð grýtt en hækkunin ekki mikil. Fjallið Lónfell er gjarnan nefnt skírnarfontur Íslands þar sem leiddar hafa verið líkur að því að hér sé kominn tindurinn hvaðan Hrafna-Flóki horfði þegar hann nefndi landið Ísland svo sem segir í Landnámu. Fleiri fjöll hafa þó verið kölluð til og sýnist sitt hverjum.