Kjósum Sirrý!

Hún er kjörkuð og öflug. Hún stendur við það sem hún segist ætla gera. Henni er verulega annt um heimahagana og fólkið sem þar býr. Þetta eru með mikilvægustu kostum sem frambjóðendur geta verið gæddir og yfir þeim býr Sirrý, G. Sigríður Ágústsdóttir, sem nú gefur kost á sér í 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvestur kjördæmi.

Tekur slaginn fyrir svæðið sitt

Þó Sirrý sé að stíga sín fyrstu skref í pólitík þá þekkir hún aðstæður í kjördæminu okkar vel. Hún er fædd og uppalin á Bíldudal og þar liggja hennar rætur. Með því að búa í Reykjavík og vera svo með annan fótinn fyrir vestan hefur hún séð með eigin augum hversu mikið svæðið okkar hefur eflst með nýsköpun og nýtingu öflugra atvinnutækifæra. Jafnframt hefur hún fundið á eigin skinni hversu mikið ójafnvægi hefur myndast milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðanna þegar kemur að aðgengi að heilbrigðisþjónustu og öldrunarþjónustu. Þetta þekkjum við vel sem hér búum í NV-kjördæmi og er afar dýrmæt að fá liðstyrk til að jafna þennan mun. Þessi afar brýnu mál hefur Sirrý sett á oddinn í sinni prófkjörsbaráttu og vill keyra áfram í okkar umboði.

Stendur við orð sín

Þegar við heyrðum af því að Sirrý vildi skella sér í prófkjörsbaráttuna í NV kjördæmi vorum við nýkomnar úr magnaðri ferð upp á Hvannadalshnjúk ásamt rúmlega 120 öðrum konum. Ferð sem Sirrý gerði að veruleika til að safna fyrir blóð- og krabbameinslækningadeild LHS. Hugmyndin um að hún færi með allar þessar konur upp hæsta tind Íslands þótti bæði falleg og klikkuð, því ekki komast allir upp sem leggja í þann leiðangur. En stemningin sem Sirrý lagði grundvöllinn að varð til þess að allar komust upp á topp og söfnunin fór fram úr björtustu vonum. Heilar 17 milljónir, takk fyrir. Þetta lýsir Sirrý vel, öflugu og kjörkuðu konunni sem kemur hugmyndum í framkvæmd.

Öflug baráttukona

Það má öllum vera ljóst að Sirrý kemur með ferska sýn og nálgun inn í pólitíkina. Hún stökk inn í prófkjörsbaráttu Sjálfstæðisflokksins í NV til að berjast fyrir heimahagana og með hverjum fundinum um kjördæmið hefur hún séð að við erum öll að berjast fyrir því sama. Að fá að nýta tækifærin okkar og standa jafnfætis öðrum landssvæðum þegar kemur að grundvallar öryggismálum. Fyrir vikið höfðar hún til breiðs hóps kjósenda og við eigum að veita slíku fólki brautargengi. Því hvetjum við íbúa NV-kjördæmis til að kjósa Sirrý í komandi prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Við þurfum á svona kjarkaðri og öflugri konu að halda.

Hafdís Gunnarsdóttir

Hólmfríður Vala Svavarsdóttir

DEILA